Kryddbrauðið hennar mömmu


Helgarnar einkennast oftar en ekki af dásamlegum mat með tilheyrandi áti en þessa helgi var alveg sérlega mikil átveisla.
Á laugardaginn skellti ég mér á nýárshátíð lagadeildar HR með tveimur vinkonum þar sem boðið var upp á veglegt hlaðborð fullt af forréttum, aðalréttum og eftirréttum.
Gærdagurinn var ekki síðri en ég bakaði gulrótarköku og kryddbrauð með kaffinu, sem var eins gott því við fengum góða gesti í heimsókn. Foreldrar mínir buðu svo upp á sunnudagslærið góða.

Gulrótarkökuuppskriftina mun ég birta síðar en núna langar mig að deila með ykkur besta kryddbrauði sem ég hef smakkað, kryddbrauðinu hennar mömmu sem hún gerði svo oft þegar ég var barn.


Kryddbrauð

320 g hveiti 
300 g sykur
240 g haframjöl
2 tsk  matarsódi
2 tsk lyftiduft
2 tsk kanill
2 tsk negull
2 tsk kakó
3 bollar mjólk

Blandið hveiti, sykri, haframjöli, matarsóda, lyftidufti, kanil, negul og kakó saman í skál.
Hrærið mjólk saman við.

Smyrjið tvö brauðform og hellið deiginu jafnt í þau.
Bakið í 40-50 mínútur við 180°.

Athugið að gott er að stinga prjóni í miðju brauðsins til að athuga hvort það sé bakað í gegn. Ef prjónninn kemur hreinn upp úr brauðinu er það tilbúið.



Verði ykkur að góðu!

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur