Indversk vetrarsúpa og speltbollur


Nú þegar nýtt ár er gengið í garð lofa margir sér, ef ekki flestir, að stunda heilsusamlegra líferni á einn eða annan hátt.
Ég er engin undantekning en ætla þó að setja mér raunhæfari markmið en fyrri ár og huga meira að heilsusamlegri réttum í miðri viku án þess þó að fara út í öfgar.
Holl og matarmikil súpa einu sinni á dag er ofboðslega einfaldur og þægilegur kostur fyrir þá sem vilja minnka aðeins mittismálið. Ég geri stóran pott af súpu sem endist út vikuna og það tekur aðeins örstutta stund að hita hana upp.

Þessi indverska karrýsúpa er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hún er svolítið sterk og inniheldur aðallega grænmeti en gott er að steikja kjúklingabringur í bitum og setja saman við súpuna, þannig verður hún enn matarmeiri.Indversk vetrarsúpa

1 1/2 rauðlaukur
3 hvítlauksrif
olía
1 lítil sæt kartafla
4 gulrætur
5 msk milt karrýmauk
2 tsk karrý
4 msk tómatpúrra
1 1/2 dl kókosflögur
1 dós kókosmjólk
700-800 ml vatn
grænmetiskraftur
salt
svartur pipar

 Skerið rauðlauk í bita og steikið í stórum potti með olíu ásamt pressuðum hvítlauk í 5 mínútur eða þar til rauðlaukurinn verður mjúkur.

Afhýðið og skerið sæta kartöflu og gulrætur í teninga.
Bætið teningunum í pottinn og steikið áfram í nokkrar mínútur.
Hrærið karrýmauki, karrý og tómatpúrru saman við grænmetið ásamt kókosflögum.

Hellið kókosmjólk og vatni í pottinn og hitið að suðu.
Smakkið súpuna til með grænmetiskrafti, salti og svörtum pipar og látið krauma við vægan hita í 45 mínútur.
Takið að lokum pottinn af hellunni og maukið súpuna með töfrasprota eða í matvinnsluvél.

Magnið af grænmetiskrafti fer eftir tegund því hann er misjafnlega saltur. Þess vegna hef ég þá þumalputtareglu að setja alltaf kraftinn fyrst og svo saltið.

Til að fullkomna þessa yndislegu súpu ber ég fram með henni nýbakaðar speltbollur.
Þessa bráðgóðu bolluuppskrift fékk ég hjá Patrycju vinkonu minni sem er einstaklega góður bakari og lumar alltaf á einhverjum hollustuuppskriftum.


Grófar speltbollur

5 dl gróft spelt
1 dl fimm korna fræblanda
1 1/2 tsk lyftiduft
1 tsk sjávarsalt
2 dl AB mjólk
1 1/2 - 2 dl heitt vatn

Blandið spelti, fræblöndu, lyftidufti og sjávarsalti saman í skál og hrærið AB mjólk og vatni saman við.
Mótið í hæfilega stórar bollur og sáldrið fræjum yfir.
Bakið við 200° í 20-25 mínútur.

Deigið á að vera blautt og klístrað þegar bollurnar eru mótaðar.
Í staðinn fyrir að dreifa úr speltbollunum á bökunarplötunni baka ég þær saman í klasa, þannig haldast þær mýkri.

Upprunalega uppskriftin inniheldur vínsteinslyftiduft en með því verða bollurnar mun blautari og klesstar.
Fyrst um sinn gerði ég bollurnar alltaf með vínsteinslyftidufti. Í eitt skipti gleymdi ég vínsteinslyftiduftinu og úr ofninum komu nákvæmlega eins bollur. Upp frá því hef ég notað venjulegt lyftiduft og bollurnar lyfta sér fallega og verða mjúkar og góðar.

Þegar ég á ekki til AB mjólk hef ég stundum í hallæri notað hreint skyr eða gríska jógúrt hrista saman við smá mjólk.
Bollurnar verða alls ekki síðri með skyri eða grískri jógúrt.


Ég hvet ykkur til að láta þessa dásamlegu vetrarsúpu ylja ykkur í  kuldanum.


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur