Matarboð í Morgunblaðinu & nesti í skólann og vinnuna


Í vikunni hafði samband við mig blaðakona frá Morgunblaðinu. Hún bauð mér að halda matarboð sem yrði birt í sunnudagsblaðinu ásamt uppskriftum og viðtali. Ég auðvitað þáði það með þökkum og bauð systur minni, frænku og vinkonu í þetta fína saumaklúbbsmatarboð.
Matarboðið birtist í sunnudagsblaðinu sem kom út í dag.
Ég bauð upp á þrjá rétti, sushi með humar tempura í forrétt, hægeldaðan svínabóg í aðalrétt og créme brûlée í eftirrétt. Matarboðið heppnaðist ljómandi vel og að því loknu tylltum við vinkonurnar okkur niður í stofu ásamt dóttur minni. Eftir þetta eðalát sofnuðum við allar kúrandi eins og klessur í sófanum, ljúfa líf.
Eftir hópblundinn okkar komumst við að þeirri niðurstöðu að saumaklúbburinn er úti, svefnklúbburinn er kominn til að vera.

En að öðru!
Nú eru langflestir skólar komnir á fullt og allir að skríða í rútínu aftur eftir jólafrí. Þá fara margir að velta því fyrir sér hvað á að hafa með í nesti.
Mér þykir svolítið gott að sofa frameftir og erfitt að fara á fætur frá litlu kúridýri svo ég er alltaf á síðustu stundu. Til að geta leyft mér þessar nokkrar mínútur aukalega þá útbý ég alltaf nestispakkann kvöldið áður. Áður en ég fór að haga nestismálunum með þessum hætti var ég afar hugmyndasnauð þegar kom að fljótlegu og hollu nesti sem endaði oft með því að ég keypti mat í mötuneyti skólans. Oftar en ekki varð þá óhollur matur fyrir valinu á himinháu verði. Ég geri mér stundum dagamun og fæ mér hádegismat í mötuneytinu en að öllu jöfnu mæti ég með tilbúið nesti.

Fyrir ykkur sem eruð hugmyndasnauð eins og ég langar mig að deila nokkrum hugmyndum að nesti sem ég hef með mér reglulega í skólann. Svo eru þessir réttir og snarl líka tilvalinn hádegismatur og millimál heimafyrir.

Ég hef sjaldnast tíma fyrir morgunmat heima svo ég er alltaf með létt nesti sem er tilvalið með morgunkaffinu.


Mér þykir afar gott að byrja morguninn með tveimur rúsínuspeltbrauðsneiðum með smjöri og osti. Rúsínuspeltbrauðið inniheldur kornblöndu og kókosmjöl ásamt öðru góðgæti. Þegar brauðið kemur út úr ofninum kæli ég það, sker í sneiðar og frysti tvær sneiðar saman í plastfilmu. Svo tek ég út eina pakkningu kvöldið áður og set í ísskápinn. Þannig fæ ég alltaf mjúkt og ferskt brauð á hverjum morgni.


Grófar speltbollur verða líka stundum fyrir valinu í morgunkaffinu en þá sker ég þær áður en ég pakka þeim í plastpoka svo ég geti sett strax á þær álegg.


Á milli mála finnst mér afar gott að narta í eitthvað góðgæti og þá er gott að hafa það í hollari kantinum.
Þegar nartþörfin gerir vart við sig finnst mér gott að eiga lágkolvetna hrökkbrauð í skólatöskunni.


Vanilluskyr með grænu epli og kókosflögum er ótrúlega bragðgóð blanda og afar heppilegt millimál þegar sætindapúkinn skýtur upp kollinum. Til að vera sérlega góð við sjálfa mig sáldra ég nokkrum rúsínum yfir til að toppa sæluna.

1/2 lítil dós vanilluskyr
1/2 - 1 grænt epli
handfylli kókosflögur
handfylli rúsínur

 Skerið grænt epli í litla bita og blandið saman við vanilluskyr.
Sáldrið kókosflögum og rúsínum yfir og setjið í nestisbox.


Stundum hef ég í nestispakkanum gríska jógúrt með hindberjasósu og múslí. Mér finnst afar þægilegt að setja hana í glerkrukku sem ég get lokað.

1 dl frosin hindber
1 tsk hunang
150 - 200 g grísk jógúrt
handfylli múslí

Sjóðið hindber og hunang saman í 5-7 mínútur og kremjið berin þannig að þau soðni niður og úr verði sósa. Kælið hindberjasósuna.
Setjið gríska jógúrt og hindberjasósu í glerkrukku í lögum og sáldrið múslí yfir.


Avocado og kotasæla eru himnesk blanda. Ef þið elskið avocado eins og ég geri þá verðið þið að prófa.
Millimálið gerist ekki einfaldara og þægilegra.

1/2 avocado
2-3 msk kotasæla

Kljúfið avocado í tvennt, fjarlægið steininn og fyllið holuna með kotasælu.


Svo er alltaf gott að hafa með sér bland í poka með þurrkuðum aprikósum, kókosflögum og möndlum.


Baunabuff með hvítlaukssósu og salati er matarmikill og góður hádegisverður. Ég á alltaf til baunabuff í frystinum til að setja í nestispakkann eða hafa í kvöldmatinn.


Kjúklingasalat með pestó er eitt af mínum uppáhalds salötum. Ég hef það stundum í kvöldmatinn og tek afganginn með mér í nesti daginn eftir.


Indverska vetrarsúpan er tilvalin í nestispakkann til að gæta smá fjölbreytni. Ég á svo sniðugar nestisskálar frá Kitchen Aid sem henta vel til að ferðast á milli staða með súpuna. Sambærilegar skálar frá öðrum framleiðendum hef ég séð í hinum ýmsu búsáhaldabúðum.


Blómkálssúpa með góðu brauði er einnig tilvalið nesti í skólann eða vinnuna.


Stuttu eftir hádegi fæ ég undantekningalaust þessa svakalegu sykurþörf og þá þykir mér gott að grípa í eina eða tvær bananamuffins. Þær innihalda hvorki hvítt hveiti né sykur heldur möndlumjöl, spelt og döðlur. Þótt spelt sé ekki hollasti kosturinn vel ég það framyfir hveiti í baksturinn þegar ég vil halda mig í hollari kantinum.


Ein eða tvær kókoskúlur með þurrkuðum ávöxtum og hnetusmjöri eru afbragðs millimál með síðdegiskaffinu.


Að lokum mæli ég með þessu stórgóða bananabrauði sem inniheldur hvorki sykur né hveiti heldur sætuefni og malað haframjöl. Ég sker það í sneiðar og frysti tvær saman í plastfilmu.

 Ég vona að þið getið nýtt ykkur þessar hugmyndir að nesti í vinnuna eða skólann kæru lesendur.
Eigið góða helgi.


Tinna Björg

Ummæli

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur