Blómkálssúpa




Þessi blómkálssúpa er í miklu uppáhaldi hjá mér enda meinholl og hrikalega góð. Hún inniheldur hvorki hveiti né mjólkurvörur en er samt kremuð eins og hún sé rjómalöguð.

1 stórt blómkálshöfuð
3-4 dl vatn
1/2 meðalstórt hvítlauksrif
ólífuolía
1 dós light kókosolía
1-2 msk grænmetiskraftur
salt og pipar eftir smekk

Skerið blómkálshöfuð niður og sjóðið í vatni í um 20 mínútur eða þar til blómkálið verður mjúkt.
Hellið aðeins af vatninu úr pottinum þannig að 3-4 dl verði eftir.
Saxið hvítlauk smátt og steikið upp úr örlítilli ólífuolíu, setjið hann svo í pottinn.
Maukið blómkálið, vatnið og hvítlaukinn saman í pottinum með töfrasprota þar til súpan verður kekkjalaus.
Hrærið kókosmjólk, grænmetiskrafti, salti og pipar saman við súpuna og hitið upp að suðu.
Látið krauma við vægan hita í 10 mínútur og berið fram.

Grænmetiskrafturinn sem ég nota er í duftformi frá Oscar. Teningar eru oft saltari og því betra að vera spar á saltið á móti.
Light kókosmjólk er bragðminni en sú venjulega en ég nota hana svo kókosbragðið yfirgnæfi ekki blómkálsbragðið.

Ég geri þessa súpu þegar mig langar í hollan og fyrirhafnarlítinn kvöldmat. Ef ég á ekki til blómkál í ísskápnum nota ég það grænmeti sem ég á til þann daginn en á flestum heimilum er oftast til eitthvað grænmeti í annað hvort ísskáp eða frysti. Súpan er ekki verri þótt grænmetið sé frosið.

Verði ykkur að góðu!

Ummæli

Vinsælar færslur