Fyrsta uppskrift ársins, þótt fyrr hefði verið!


Jæja, fjórir mánuðir liðnir frá síðustu bloggfærslu...
Eins gaman og mér þykir að bardúsa í eldhúsinu og deila afrakstrinum með lesendum hér á síðunni þá tók ég þá ákvörðun að leggja þetta áhugamál til hliðar í nokkra mánuði. Plönin fóru aðeins öðruvísi en ég hafði hugsað mér en í byrjun febrúar hóf ég í fullt starf samhliða fullu námi. Ég ætlaði aldeilis að taka þetta allt saman með trompi ásamt móðurhlutverkinu og verandi með tvö hross á húsi. Komst auðvitað fljótt að því að ég er víst ekki þrjár manneskjur þótt ég vilji gjarnan halda það. Áhugamálin, þar á meðal matargerðin, hafa því fengið að sitja á hakanum þessa önnina. En nú er komið vor, skólinn að klárast og ég með kollinn stútfullan af alls kyns uppskriftum og skemmtilegheitum. Nóg um það síðar.

Hún Tinna Alavis vinkona mín, lífstílsbloggari og fegurðardrottning með meiru, hafði samband við mig og bauð mér að vera með gestablogg fyrir uppskriftasíðu Krónunnar. Ég sló til og eldaði þennan dýrindis kjúklingarétt með nýju vörunum frá Jamie Oliver. 
Þegar ég kem heim úr vinnunni eftir tólf tíma vakt er eldamennska það sísta sem kemur upp í hugann. Þá finnst mér ansi gott að geta gripið í bragðgóðar tilbúnar vörur eins og þær sem ég notaði í þessar ljúffengu smoky kjúklingabringur.

 

Smoky kjúklingabringur í ostaveislu
Fyrir 4-6 manns

6 kjúklingabringur
3 msk olía
1 bréf Fiery Jerk Marinade Mix kryddblanda frá Jamie Oliver

Setjið kjúklingabringur í skál ásamt olíu og kryddblöndu. Nuddið kryddblöndu og olíu vel á kjúklinginn og látið standa á meðan ostafyllingin er útbúin.

 
Ostafylling
 
225 g spínat
2 msk olía
150 g Philadelphia Light rjómaostur
150 g kotasæla
60 g rifinn parmesanostur
50 g kasjúhnetur
sjávarsalt
svartur pipar

Hitið olíu á pönnu og veltið spínati um heita pönnuna við vægan hita þar til það mýkist og verður umfangsminna. Athugið að spínatið soðnar niður á aðeins örfáum mínútum og það viljum við ekki. Því er mikilvægt að fylgjast vel með pönnunni allan tímann. Kælið spínatið niður við stofuhita.
Sameinið rjómaost, kotasælu og parmesanost í skál. Malið kasjúhnetur gróflega í matvinnsluvél og blandið saman við ostablönduna ásamt spínati. Smakkið til með sjávarsalti og svörtum pipar.


2/3 krukka Jamie Oliver pesto með valhnetum og rauðri papriku
125 g mozzarella ostur (1 kúla)

Kljúfið kjúklingabringur með beittum hníf þannig að hægt sé að opna þær eins og bók. Setjið 2-3 msk af ostafyllingu inn í hverja kjúklingabringu og rúllið þeim síðan upp þannig að fyllingin renni síður út við eldun. Raðið fylltum kjúklingabringunum þétt saman í eldfast mót og smyrjið 1 - 1 1/2 msk af valhnetu- og paprikupestó yfir hverja bringu. Skerið mozzarellaost í hæfilega þykkar sneiðar og leggið ofan á kjúklingabringur. Grillið í ofni við 180° í 35-40 mínútur. Gott er að hafa álpappírsörk yfir mótið í ofninum síðustu 10 mínúturnar til að koma í veg fyrir að osturinn brúnist um of. 

Réttinn bar ég fram með ofnbökuðum sætum kartöflum og einföldu grænmetissalati.


Ég rakst á þetta girnilega Sticky Fig balsamikedik frá Jamie Oliver í Krónunni og af því að fíkjur eru einn af mínum uppáhalds ávöxtum þá stóðst ég ekki mátið. Edikinu dreypti ég yfir salatið en það gerði algjörlega gæfumuninn.

Öll hráefni í uppskriftina fékk ég í Krónunni.Ég mæli hiklaust með þessum rétti fyrir helgina kæru vinir. Hollt og gott en hrikalega djúsí.

Gleðilegt sumar!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur