Himneskar kókoskúlur



Ég ætla aðeins að halda áfram með hollustuhugleiðingarnar áður en ég legg af stað upp í sveit þar sem hollustan verður alls ekki í fyrirrúmi. Mig langar að deila með ykkur uppskrift að kókoskúlum sem ég á oft í frystinum til að taka með mér í skólann. Þær eru bæði hollar og alveg sjúklega góðar. Þrátt fyrir að hráefnin séu holl og góð fyrir líkama og sál þá innihalda kókoskúlurnar dágóðan slatta af hitaeiningum og fitu svo ég læt mér nægja að fá mér eina eða tvær.

Mér líður best þegar ég borða meiri kolvetni fyrri part dags og dreg svo úr kolvetnaneyslunni þegar líða fer á daginn. Þá reyni ég að borða aðeins próteinríkara seinni partinn. Kókoskúlurnar eru því tilvalið millimál í skólann eða vinnuna.

 
Kókoskúlur

150 g döðlur
200 g gráfíkjur
3 msk hnetusmjör
100 g afhýddar möndlur
1 bolli kókosmjöl
2 tsk vanilludropar
3-4 tsk kakó
1 tsk kanill
(1-2 msk hunang)

Sjóðið döðlur í vatni í 5-10 mínútur og hellið af þeim. Maukið í matvinnsluvél ásamt gráfíkjum. Bætið hnetusmjöri og möndlum saman við. Setjið að lokum restina af hráefnunum út í og blandið vel saman þar til deigið verður nógu blautt til að hnoða í kúlur.

Ef deigið er þurrt, bleytið þá upp í því með smá meira af vanilludropum eða 1-2 msk af hunangi. Það er aldrei of mikið af elskulegu vanilludropunum í neinni uppskrift!

Kælið deigið í ísskáp í um 30 mínútur.

Hnoðið það svo í hæfilega stórar kúlur og veltið þeim upp úr kókosmjöli.

  
Ég nota frekar vanilludropa til að bleyta upp í deginu en hunang því mér finnst kúlurnar verða alveg nógu sætar án þess.

Að vinna deigið í matvinnsluvél getur verið svolítið tímafrekt og leiðinlegt þegar maður á lélega matvinnsluvél eins og ég. Stundum langar mann að gráta smá úr leiðindum á meðan því stendur en þessar kókoskúlur eru alveg nokkurra tára virði. Ég lofa.

  
Verði ykkur að góðu og njótið helgarinnar kæru vinir!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur