Súrt og sætt jarðarberja- og hindberjapæ

Nú er öðrum skóladegi lokið og ég er ennþá að reyna að koma mér inn í rútínuna. Það er hægara sagt en gert að rífa sig upp eldsnemma á morgnana til að mæta í skólann þegar mann langar til að sofa og kúra til hádegis með litla gullinu sínu. Þetta venst þó vonandi allt saman á endanum.

Þótt skóladagurinn hafi nú ekki verið langur var ég eitthvað sérlega þreytt og buguð þegar ég kom heim en þegar ég er þreytt langar mig alltaf í sykur. Ég fór því út í garð og tíndi jarðarber til að gera þetta ljómandi góða jarðarberja- og hindberjapæ.

Jarðarberja- og hindberjapæ

200 g mjúkt smjör
200 g hveiti
200 g púðursykur
500 g fersk jarðarber
300 g frosin hindber

Hnoðið smjör, hveiti og púðursykur saman í skál.
Setjið jarðarber og hindber í botninn á eldföstu móti og dreifið deiginu yfir í bitum þannig að það hylji berin.
Bakið við 200° í 25-30 mínútur.

Berið fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.


Þetta pæ er svo ljúffengt að þið hreinlega verðið að smakka það. Púðursykurinn og smjörið bragðast eins og karamella sem passar svo vel við súr berin.

Verði ykkur að góðu!

Ummæli

Vinsælar færslur