Dásamlegir kjúklingafingur með sætkartöflufrönskum, sinnepssósu og gráðaostasósu!


Ég átti kjúklingabringur í frystinum og langaði til að prófa nýja uppskrift sem ég er búin að hugsa um í nokkrar vikur.
Við fjölskyldan förum stundum á Friday's og ég panta mér alltaf sama réttinn, Chicken fingers. Á forréttamatseðlinum eru Buffalo boneless wings sem mér finnst svakalega góðir líka en það er kannski svolítið mikið að fá sér kjúkling í forrétt og aðalrétt.

Mér datt í hug að gera kjúklingafingur sem eru eins konar blanda af báðum þessum réttum og þeir heppnuðust svona líka ljómandi vel.

Kjúklingafingur
fyrir 4-5 manns

6 kjúklingabringur
Hot Wings sósa frá Maxi
3 dl hveiti
1 1/2 tsk salt
1 tsk svartur pipar
olía til steikingar (t.d. repjuolía)

Skerið hverja kjúklingabringu í 3 strimla og setjið í fat. Veltið strimlunum upp úr Hot Wings sósu og látið marinerast í 1-2 klukkustundir.

Blandið saman hveiti, svörtum pipar og salti í skál.
Veltið kjúklingastrimlunum upp úr hveitiblöndu, hellið Hot Wings sósu yfir og veltið aftur upp úr hveitiblöndunni.
Hellið olíu í stóran og djúpan pott þannig að hún sé um 1-2 cm þykk og hitið þar til hún verður funheit. Athugið að olían getur hitnað of mikið svo fylgist vel með henni.

Leggið kjúklingastrimlana varlega ofan í pottinn með olíunni og steikið á báðum hliðum þar til þeir verða fallega ljósbrúnir og stinnir. Takið strimlana upp úr pottinum og leggið á grind svo olían leki af þeim.


Með kjúklingafingrunum hafði ég sætkartöflufranskar og tvenns konar sósur, sinnepssósu og gráðaostasósu.

 
Sætkartöflufranskar

2 sætar kartöflur
hveiti
ólífuolía
salt
pipar

Skerið sætar kartöflur í mjóa strimla og látið liggja í vatni í 15-20 mínútur.

Hellið vatninu af og látið standa í nokkrar mínútur þannig að kartöflurnar þorni aðeins, þó ekki alveg.

Veltið kartöflunum upp úr hveiti þannig að þær verði þaktar örþunnu lagi. Veltið þeim svo upp úr ólífuolíu og raðið á álpappírsklædda ofnskúffu þannig að örlítið bil sé á milli strimlanna.

Bakið kartöflurnar í ofni við 220° í um 10 mínútur á hvorri hlið eða þar til þær verða stökkar og endarnir farnir að brúnast.

Saltið og piprið sætkartöflufranskarnar áður en þær eru bornar fram.

Fljótlegast er að setja hveitið og kartöflurnar í poka til að þekja þær.

Ástæðan fyrir því að ég nota álpappír frekar en smjörpappír er sú að smjörpappírinn brennur á grillstillingunni í ofninum


Sinnepssósa

Sinnepssósan er í uppáhaldi hjá okkur í fjölskyldunni enda himnesk! Hún líkist sinnepssósunni á Friday's sem mér þykir svo góð.

1/2 bolli majones
1/2 bolli sýrður rjómi
2 msk sinnep
4 msk fljótandi hunang
1 msk rauðvínsedik
salt
pipar

Hrærið majones þannig að það verði mjúkt og bætið svo sýrðum rjóma saman við ásamt sinnepi, hunangi og rauðvínsediki.
Smakkið til með salti og pipar.

Ég nota French Yellow Mustard sem fæst í kosti en hvaða gula sinnep sem er eða Dijon sinnep dugar.

Nota má hvítvínsedik í stað rauðvínsediks.


Gráðaostasósa

Gráðaostasósan er tilvalin fyrir ostaunnendur. Ég mæli með því að þið smakkið sósuna til með gráðaostinum því sumir vilja hafa sterkt ostabragð á meðan aðrir vilja það daufara.

1/4 bolli majones
1/2 bolli sýrður rjómi
safi úr 1/4 sítrónu
1/2 tsk hvítlauksduft
1/2 tsk salt
1/2 tsk svartur pipar
60-80 g gráðaostur

Byrjið á að hræra majones þannig að það verði mjúkt og blandið svo sýrðum rjóma, sítrónusafa og hvítlauksdufti saman við. Brytjið gráðaostinn ofan í og smakkið til með salti og pipar.

Handtökin við þennan rétt eru þónokkur en ég get með hreinni samvisku sagt að þau eru öll þess virði og ég mæli með því að þið prófið hann um helgina í staðinn fyrir að fara út að borða.

Njótið kvöldsins kæru vinir.

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur