Holusteikt lambalæri með sveppasósu
Ég fór með fjölskyldunni upp í bústað um
helgina til að nýta restina af sumrinu svona rétt áður en skólinn byrjar. Við
fengum ágætis veður en þó ekki sólina sem var í Reykjavík.
Á meðan foreldrar mínir brugðu sér í
berjamó skrapp ég og tíndi blóðberg. Mér finnst ofboðslega gott að krydda kjöt
með blóðbergi en á laugardagskvöldið holusteikti ég lambalæri og hafði
sveppasósu með.
Á þessum tíma sumarsins er blóðbergið oftast búið að blómstra
fyrir vestan og getur verið aðeins erfiðara að finna plönturnar en ég fann þó dágóðan slatta
og sumt ennþá blómstrandi.
Holusteik er í algjöru uppáhaldi en
fjölskyldan mín hefur steikt lambalæri með þessum hætti í fjölda ára. Það er
alveg tilvalið að hafa eina svona holu í garðinum við sumarbústaðinn.
Holusteikt lambalæri
Grafið holu 40-50 cm ofan í jörðina og
klæðið botninn með flötum steinum. Leggið álpappírsræmu ofan á steinana í
botninum og raðið einum pakka af kolum í hrauk ofan í holuna. Hellið grillvökva
á kolin og kveikið í þeim á nokkrum stöðum þannig að kolin brenni jafnt.
Undirbúið lambalærið á meðan kolin loga.
1 lambalæri (2
kg)
2 handfylli blóðberg
salt
hvítur pipar
2 handfylli blóðberg
salt
hvítur pipar
Kryddið lambalærið með salti og hvítum
pipar og vefjið blóðbergi utan um. Pakkið því inn í þrjú lög af álpappír og passið
að álpappírsrúllan sé nógu breið til að hylja allt lærið. Ef álpappírinn nær
ekki allan hringinn utan um lambalærið getur hann farið að leka.
Ég notaði lambalæri með ferskum
kryddjurtum frá Íslands Lambi en það er alveg eins gott að kaupa ómarinerað læri
og krydda það. Þegar ég er með tilbúið kryddað læri skef ég megnið af
kryddleginum af og bæti við salti og hvítum pipar áður en ég vef blóðbergi utan
um.
Þegar ég tíndi blóðberg safnaði ég í
leiðinni þurrum sprekum til að setja ofan í holuna með lærinu því mér þykja þau
gefa lærinu svo gott reykjarbragð.
Þegar kolin eru hætt að loga og eru orðin
hvít, dreifið þá úr þeim og leggið sprekin yfir. Setjið lambalærið ofan á kolin
og lokið holunni með plötu, s.s. bárujárnsplötu eða einhverju slíku.
Reynið að
loka holunni vel þannig að hitinn haldist ofan í en hafið þó örlítið op svo
glóðin í kolunum slökkni ekki.
Steikið lærið í holunni í 40 mínútur á
hvorri hlið. Notið ofnhanska eða annan þykkan hanska til að snúa lærinu.
Takið lærið úr holunni og látið standa í
10-15 mínútur.
Sveppasósa
1 askja sveppir
3 msk smjör
500 ml matreiðslurjómi
1 ½ msk grænmetiskraftur frá Oscar
½ tsk hvítur pipar
3-4 msk ljós sósujafnari
soð af lambalærinu
3 msk smjör
500 ml matreiðslurjómi
1 ½ msk grænmetiskraftur frá Oscar
½ tsk hvítur pipar
3-4 msk ljós sósujafnari
soð af lambalærinu
Skerið sveppina í hæfilega stóra bita.
Steikið þá í potti upp úr smjöri í nokkrar mínútur þar til sveppasoð hefur
myndast í botni pottarins. Hellið matreiðslurjóma í pottinn og látið suðuna
koma upp. Hrærið grænmetiskrafti og svörtum pipar saman við ásamt sósujafnara.
Lækkið hitann og látið sósuna krauma í nokkrar mínútur. Hellið soði af
lambalærinu sem verður eftir í álpappírnum ofan í pottinn.
Með lærinu hafði ég ofnbakað hvít- og
rauðkál. Þið trúið því ekki hvað það er gott fyrr en þið smakkið það. Kálið
verður mjúkt inni í en stökkt eins og snakk utan á.
Ofnbakað hvít- og rauðkál
½ hvítkálshaus
½ rauðkálshaus
ólífuolía
sjávarsalt
½ rauðkálshaus
ólífuolía
sjávarsalt
Skerið hvít- og rauðkál í mjóar ræmur og
setjið í eldfast mót eða ofnskúffu. Hellið ólífuolíu yfir allt kálið og verið
ekkert að spara hana. Stráið sjávarsalti yfir kálið og blandið saman við.
Bakið ofarlega í ofni við 225–250° í 15-20 mínútur eða þar til kálið er farið að brúnast og endarnir orðnir stökkir.
Ég ofnbakaði líka kartöflur og
sætar kartöflur með ólífuolíu og rósmarín og hafði fljótlegt grænmetissalat með.
Maturinn bragðaðist dásamlega. Ég skora
á ykkur sem hafið tök á að holusteikja lambalæri og prófa þessa óhefðbundnu
eldunaraðferð. Þið verðið sko ekki svikin, því get ég lofað.
Þakka ykkur kærlega fyrir að fylgjast með
litla matarblogginu mínu kæru vinir og njótið dagsins!
Tinna Björg
Fékk Bruna-hroll í hrygginn.
SvaraEyðaMér var kennt að holusteikja aðeins í sandi eða möl.