Jarðarberjarúlluterta og ævintýri helgarinnar
Þá er róleg en dásamleg verslunarmannahelgi yfirstaðin en við fjölskyldan fórum saman í Húsafell. Veðrið hefði mátt vera betra en við fengum þó smá sólskin þegar við komum á föstudeginum og litla skvísan fékk að liggja alsæl úti í skugga að skoða uppáhalds leikfangið sitt.
Ég var skráð sem gestakeppandi í keppni á milli sumarhúsaeigenda í Húsafelli og fengum við það hlutverk að leggja á borð fyrir tvo. Lagt var á mörg falleg borð. Við bárum ekki sigur úr býtum í þessari keppnisgrein en höfðum engu að síður gaman af.
Á laugardagskvöldið var svo fjölmennur brekkusöngur og mikil gleði.
Við urðum svo leið á rokinu og kuldanum að við komum heim snemma á sunnudaginn. Það var virkilega gott að koma heim svona snemma og eyða deginum í rólegheitum en við nældum okkur í einhverja kvefpest og hvíldin því kærkomin. Á sunnudagskvöldið komu svo nágrannarnir yfir til okkar og við spiluðum félagsvist. Þetta var fyrsta skiptið sem ég spila vist, það tók mig svolítinn tíma að læra spilið en þetta var hin fínasta skemmtun.
Helginni lauk með heimsókn til föðurafa míns í gær en hann átti afmæli á sunnudaginn. Í tilefni dagsins bakaði ég rúllutertu með jarðarberjarjóma eins og föðuramma mín heitin var vön að bjóða upp á í kaffiboðum. Kakan er svona svolítið gamaldags, svampbotn með sultu og rjóma. Hún er ofboðslega góð og jarðarberin gera hana svo ferska. Amma frysti kökuna áður en hún bar hana á borð og mér finnst hún best þannig, þegar rjóminn hefur kristallast aðeins.
Síðastliðna daga hef ég mikið einbeitt mér að bakstri og lítið gert af eldamennsku en nú fer ég að spýta í lófana og matreiða hina ýmsu góðu rétti. Ég á svakalega góða uppskrift að bananakjúklingi sem ég ætla að elda í vikunni svo ég hvet ykkur til að líta við og fylgjast með. Endilega deilið og like-ið fyrir mig á Facebook kæru vinir svo fleiri geti notið uppskriftanna.
Kærar þakkir fyrir að fylgjast með mér og njótið dagsins.
Tinna Björg
Ummæli
Skrifa ummæli