Gómsætur bananakjúklingur

Í kvöldmatinn eldaði ég bananakjúkling sem faðir minn var duglegur að elda þegar ég var yngri. Mér þótti hann aldrei sérstaklega góður því mér fannst ofboðslega skrýtið að blanda sætum ávöxtum við kjúkling og beikon. En bragðlaukarnir hafa sem betur fer þroskast og núna finnst mér hann meiriháttar.


Bananakjúklingur

1 stór kjúklingur
salt
hvítur pipar
paprikuduft
3 msk smjör
500 ml eplasafi
250 g rauð vínber
250 ml rjómi
3 bananar
hálft bréf beikon
3 msk maizena jafnari


Skerið kjúklinginn í 8 bita (2 læri, 2 leggi og 4 bringubita) og hamflettið.
Blandið salti, pipar og papriku saman í skál og stráið yfir kjúklingabitana. Bræðið 2 msk af smjöri á pönnu og brúnið kjúklingabitana við góðan hita. Lækkið hitann og hellið eplasafanum yfir. Látið krauma í 30-40 mínútur. Bætið þá rjóma út í og kryddið meira eftir smekk. Hrærið maizena jafnara saman við og látið krauma þar til sósan þykknar.

Setjið kjúklingabitana í eldfast mót eða fallegt fat og hellið sósunni yfir. 

Kljúfið banana og skerið í tvennt þannig að úr hverjum banana verði 4 sneiðar. Brúnið þá á báðum hliðum á pönnu með 1 msk af smjöri og raðið ofan á kjúklinginn.
Skerið beikon í litla bita og steikið þar til þeir verða stökkir.
Skerið vínber í tvennt og stráið yfir kjúklinginn ásamt beikonbitum.

Hér er það smekksatriði hversu mikið á að krydda kjúklinginn, ég þek alla bitana með kryddblöndunni og smakka svo sósuna til með paprikudufti og hvítum pipar.
Ég kýs að hamfletta kjúklinginn því mér þykir ekki gott að hafa skinnið með í þessum rétti. Mörgum finnst gott að hafa skinn en það gefur sterkara kjúklingabragð.

Berið réttinn fram með hrísgrjónum og salati.
 
Ég mæli með því að þið prófið þennan svakalega góða kjúkling kæru vinir, hann mun slá í gegn í matarboðinu.

Verði ykkur að góðu!



Ummæli

  1. MMMM þetta ætla ég að prufa

    kv Soffía Arngríms.

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur