Elskulega rabarbara- og jarðarberjahlaupið mitt og innbakaður camembert ostur


Ég tíndi jarðarber í garðinum á sunnudaginn og gerði rabarbara- og jarðarberjahlaupið mitt góða. Jarðarberjaplönturnar gefa af sér dísæt ber svo ég set ekkert ofboðslega mikinn sykur í hlaupið, ég vil líka hafa það aðeins súrt. Uppskriftin inniheldur svolítið mikið af jarðarberjum svo ég mæli með því að hafa þau frosin til að forðast gjaldþrot.


Rabarbara- og jarðarberjahlaup

2 kg rabarbari
1,5 kg jarðarber
1,8 kg sykur
300 ml vatn
2 pakkar gulur Melatin hleypir

Saxið rabarbarann og setjið í pott ásamt jarðarberjum og vatni. Sjóðið þar til rabarbarinn og jarðarberin hafa maukast og sigtið í gegn um taubleiu. Setjið saftina og sykur í pott og hitið þar til suðan kemur upp. Hrærið hleypinum saman við og sjóðið í 15-20 mínútur.

Hellið í krukkur og kælið áður en þeim er lokað.

Saftin verður tærari ef hún er látin drjúpa hægt í gegn um taubleiuna en það getur tekið nokkra klukkutíma. Ég er ansi óþolinmóð ung kona og sé mér aldrei fært að bíða svo lengi þannig að ég kreisti saftina í gegn. Þótt hlaupið verði ekki eins tært er það engu að síður ofboðslega bragðgott.

Ég er mikið meira fyrir hlaup en sultur og finnst nauðsynlegt að eiga alltaf eina krukku í ísskápnum. Þá vil ég helst eiga heimagert hlaup því mér þykja hlaupin sem fást í búð of sæt.

Nú þegar ég var búin að gera elskulega hlaupið mitt þótti mér tilvalið að gera innbakaðan ost sem er svakalega góður með rabarbara- og jarðarberjahlaupi eða rifsberjahlaupi. Ég nota tilbúið fryst smjördeig sem fæst í flestum ef ekki öllum matvöruverslunum.


Innbakaður camembert ostur
 
2 stk frosnar smjördeigsplötur
1 camembertostur

Setjið deigplöturnar á sitthvora smjörpappírsörkina og látið þiðna. Fletjið þær þunnt út í ferninga.

Skerið camembert ost í sneiðar og dreifið yfir annað deigið en skiljið um 1 cm kanta eftir auða. Leggið hitt deigið ofan á, brettið upp á kantana og klessið niður með gaffli svo osturinn leki ekki út.

Bakið við 200° í 15-20 mínútur þar til smjördeigið er orðið fallega brúnt.

Berið fram með rabarbara- og jarðarberjahlaupi.


Ég skora á ykkur kæru vinir að prófa þessa tvennu, hún er himnesk!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur