Holl og góð blómkálssúpa og frískandi límonaði


Í kvöldmatinn hafði ég fljótlega og einfalda en samt sem áður ljúffenga blómkálssúpu. Hún inniheldur hvorki hveiti né mjólkurvörur en er samt kremuð eins og rjómalöguðu súpurnar.

Til að gera súpuna kremkennda nota ég kókosmjólk. Það var hún Magga kokkur sem kenndi mér að gera svona hollustusúpur en við unnum saman á Hótel Eddu á Laugum í Sælingsdal síðasta sumar. Við starfsfólkið fengum holla og ljúffenga súpu hjá Möggu einu sinni á dag og í gríni kallaði hún það súpukúrinn. Þegar líða tók á sumarið kom í ljós að þessi súpukúr var alls ekkert grín því kílóin byrjuðu að fjúka og mér leið betur á bæði sál og líkama.


Blómkálssúpa

1 stórt blómkálshöfuð
3-4 dl vatn
1/2 meðalstórt hvítlauksrif
ólífuolía
1 dós light kókosolía
1-2 msk grænmetiskraftur
salt og pipar eftir smekk


Skerið blómkálshöfuð niður og sjóðið í vatni í um 20 mínútur eða þar til blómkálið verður mjúkt.
Hellið aðeins af vatninu úr pottinum þannig að 3-4 dl verði eftir.
Saxið hvítlauk smátt og steikið upp úr örlítilli ólífuolíu, setjið hann svo í pottinn.
Maukið blómkálið, vatnið og hvítlaukinn saman í pottinum með töfrasprota þar til súpan verður kekkjalaus.
Hrærið kókosmjólk, grænmetiskrafti, salti og pipar saman við súpuna og hitið upp að suðu.
Látið krauma við vægan hita í 10 mínútur og berið fram.

Grænmetiskrafturinn sem ég nota er í duftformi frá Oscar. Teningar eru oft saltari og því betra að vera spar á saltið á móti.
Light kókosmjólk er bragðminni en sú venjulega en ég nota hana svo kókosbragðið yfirgnæfi ekki blómkálsbragðið.

Ég geri þessa súpu þegar mig langar í hollan og fyrirhafnarlítinn kvöldmat. Ef ég á ekki til blómkál í ísskápnum nota ég það grænmeti sem ég á til þann daginn en á flestum heimilum er oftast til eitthvað grænmeti í annað hvort ísskáp eða frysti. Súpan er ekki verri þótt grænmetið sé frosið.

Mér þótti tilvalið að gera frískandi límonaði til að njóta í kvöldsólinni svona í tilefni þess að hún ákvað að láta sjá sig í dag.


Þetta límonaði geri ég stundum á heitum sumardögum þegar mig langar í eitthvað súrt og svalandi. Uppskriftin er afar einföld og fljótleg. Manni líður að sjálfsögðu langbest þegar maður drekkur límonaði úr fínu glasi með smá skrauti og helst með blómakrans um hálsinn.

Límonaði

700 ml heitt vatn
safi úr 2 sítrónum
5-6 msk flórsykur

Hitið vatn og hrærið sítrónusafa og flórsykri saman við þar til sykurinn leysist upp.
Setjið í kæli eða frysti og látið kólna.
Berið fram ískalt með klaka.

Til að stytta tímann sem það tekur fyrir límonaðið að kólna má setja flórsykurinn og sítrónusafann í 300 ml af heitu vatni og setja svo mikið af klaka út í.


Á morgun ætla ég að sýna ykkur myndir af kökum sem væntanlegar eru á síðuna.
Verið spennt!

Ummæli

Vinsælar færslur