Unaðsleg skúffukaka með kaffikremi og rúsínuspeltbrauð til að hafa með í ferðalagið



Nú eru margir að gera sig klára fyrir ferðalag um helgina og þá er ekki úr vegi að skella einni fljótlegri skúffuköku í ofninn til að hafa með kaffinu í sumarbústaðnum eða tjaldinu. Ég eyddi gærdeginum í að þvo þvott og pakka niður en ég er ennþá að venjast því að pakka niður fyrir fleiri en bara sjálfa mig. Þeir eru ófáir hlutirnir sem fylgja einu barni. Ég gaf mér þó tíma til að baka þessa gómsætu skúffuköku sem hefur verið fjölskylduskúffukakan í fjölda ára.



Kakan er alveg svakalega mjúk og rök. Hún geymist vel og helst mjúk í nokkra daga. Kremið er hálfgerður glassúr með kaffibragði og er því tilvalin fyrir kaffiunnendur. Þá sem eru lítið fyrir kaffibollann hvet ég eindregið til að prófa kökuna engu að síður því bragðið er ekki svo yfirþyrmandi að það minni á svart og sykurlaust.

Nokkur atriði þarf að hafa í huga við baksturinn. Nú er ég ekki með það alveg á hreinu hvort allir nútímaofnar hafi sigti en ef eitt slíkt leynist í ofninum, munið þá að taka það úr áður en bakað er. Ef sigtið er í ofninum bakast deigið hægt og illa.

Þegar kökur eru bakaðar er mikilvægt að opna ekki ofninn fyrr en kakan er búin að lyfta sér í miðjunni, miðjan sé ekki mjúk og fljótandi. Ef ofninn er opnaður fellur hún og verður klesst. Til að athuga hvort kakan sé tilbúin er gott að stinga prjóni í hana miðja, ef prjónninn kemur hreinn upp er kakan tilbúin.

Ég varð uppiskroppa með yndislega rúsínuspeltbrauðið mitt svo ég skellti í tvö stykki til að frysta. Mér þykir afar þægilegt að geta gripið í eina og eina sneið í frystinum þegar brauðpúkinn lætur á sér kræla en ég er ein af þeim fjölmörgu konum sem reyna að forðast brauðneyslu dagsdaglega.


Þótt rúsínuspeltbrauðið sé kolvetnaríkt þykir mér það betri og hollari kostur en gerbrauð úr búð eða bakaríi. Til að gera það ennþá hollara má skipta speltinu út fyrir malað haframjöl en þá verður brauðið örlítið þurrara. Þegar ég hef brauðið með mér sem nesti í skólann tek ég tvær sneiðar úr frystinum kvöldið áður og smyr um morguninn.


Kaffitíminn í ferðalaginu verður ekki leiðinlegur þegar þessar tvær eru með í för en ég átti eina marsipanformköku í frystinum sem ég ætla að hafa með mér.

Endilega prófið þessar uppskriftir og látið mig vita hvað ykkur finnst.
Góða helgi kæru vinir og ferðist varlega.

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur