Marsipanformkaka



Þessa köku gerði ég úr gamalli jólakökuuppskrift frá móðurömmu minni. Hugmyndina að því að setja marsipan ofan á kökuna fékk ég frá Gógó frænku minni á Ísafirði. Þegar ég fór til Ísafjarðar á sumrin með foreldrum mínum sem barn, heimsóttum við alltaf Gógó frænku og Inga frænda í sumarbústaðinn þeirra inni í Skógi. Í einni heimsókninni var Gógó nýbúin að baka sandköku en hún hafði átt afganga af marsipani sem hún gat ómögulega hent. Úr varð þessi unaðslega marsipanformkaka sem ég mun seint gleyma.

125 g mjúkt smjör
150 g sykur
2 egg
150 g hveiti
2 tsk lyftiduft
1 dl mjólk

60 g Odense marsipan

Hrærið smjör og sykur vel saman þar til blandan er létt og ljós, bætið einu eggi í einu út í skálina. Blandið hveiti og lyftidufti rólega saman við og hrærið svo á hraðari stillingu í um hálfa mínútu. Blandið mjólk saman við.
Smyrjið brauðform vel og vandlega með smjöri og hellið deiginu í.
Skerið marsipan í strimla og setjið ofan á kökuna. Ekki þarf að þrýsta marsipaninu ofan í deigið því það bráðnar og lekur ofan í kökuna.

Afi minn kenndi mér það ráð að setja kökuna inn í kaldan ofninn og láta hann hita sig á meðan kakan er inni. Stillið ofninn á 170° og bakið um 40 mínútur eða þar til prjónn sem stungið er í kökuna kemur hreinn upp úr henni.
Takið kökuna varlega úr forminu, leggið hana á hliðina ofan á ofngrind og látið kólna.

Ég hef bakað kökuna bæði í álformi og sílikonformi. Í báðum formunum festist kakan örlítið við botninn því marsipanið gerir hana klístraða á meðan hún er heit. Gott er að setja smjörpappírsrenning í botninn á forminu og upp með hliðunum svo auðveldara sé að losa hana.


Hún er svakalega góð þessi og tilvalin með síðdegiskaffinu í útileguna. Gott er að eiga eina svona í frysti til að bera fram ef von er á gestum og ekki gefst tími til að baka.







Ummæli

  1. Mmm, þessi lítur vel út :) Hendi í hana við tækifæri, án efa.
    Kv Bergþóra Kristín

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur