Pizzaveisla á föstudegi

Nú er kærkomið helgarfrí gengið í garð eftir fyrstu skólavikuna. Vikan gekk vel og 14 vikna ungfrúin stóð sig með prýði mömmulaus á meðan ég mætti í skólann. Ég verð þó að viðurkenna að mömmuhjartað tók nokkur auka slög en hún var í góðum höndum og þau feðginin áttu góðar morgunstundir saman.

Ég eyddi restinni af deginum í frágang á peysu sem ég er að prjóna á dóttur mína eins og gömlum sálum sæmir en systir mín kom svo með fjölskylduna sína í pizzapartí á þessu fína föstudagskvöldi.

Þessi uppskrift hefur verið notuð í fjölskyldunni alla mína tíð og pizzur voru með því fyrsta sem ég bakaði. Ég fullyrði ekki að myndirnar séu girnilegustu pizzamyndir í heimi en bragðið er alveg hreint afbragð.


Pizza

2 1/2 tsk þurrger
1 1/2 dl volgt vatn
3/4 tsk salt
1 msk ólífuolía
3 1/2 dl hveiti

Leysið þurrger upp í vel volgu vatni.
Hrærið salti og ólífuolíu saman við.
Blandið hveiti saman við og hnoðið í hrærivél þar til deigið verður örlítið seigt.
 Leggið rakt viskastykki yfir skálina og látið hefast í 30-40 mínútur.

Ég er ekkert sérlega þolinmóð og finnst ekkert leiðinlegra en að bíða eftir að deig lyfti sér svo ég legg skálina með deiginu á stofuofninn og hækka hann í botn. Með þessari aðferð er nóg að láta deigið hefast í 20-25 mínútur.

Ég kaupi venjulega tilbúna pizzasósu en ákvað að breyta til í þetta skipti og prófaði að gera svipaða sósu og Jói Fel gerði í einum af skemmtilegu grillþáttunum sínum. Áður en ég set pizzasósuna á smyr ég þunnu lagi af tómatpúrru á deigið.

Skerið niður álegg eftir smekk og búið til sósu á meðan deigið hefast.

Sósa

3 skallottlaukar
2 stór hvítlauksrif
ólífuolía
1 flaska tómatpassata frá Himneskt
3-4 msk tómatpúrra
3 tsk oregano
3 tsk basilika
3-4 tsk pizzakrydd
salt
pipar

Saxið skallottlauk og hvítlauk smátt og steikið í potti upp úr smá ólífuolíu við vægan hita þannig að hann svissist.
Bætið tómatpassata og tómatpúrru saman við laukinn ásamt oregano, basiliku og pizzakryddi.
Hitið upp að suðu og látið svo krauma við vægan hita í nokkrar mínútur.
Smakkið til með salti og pipar.


Ein pizzauppskrift fyllir út í eina bökunarplötu ef hún er höfð ferhrynd. Ef pizzurnar eiga að vera kringlóttar dugar deigið í tvær.

Mótið slétta kúlu úr deiginu og fletjið út.
Leggið útflatt deigið á smjörpappír og smyrjið það með þunnu lagi af tómatpúrru.

Smyrjið sósunni svo yfir pizzuna.

Dreifið áleggi yfir pizzuna og sáldrið rifnum osti yfir. Ég nota tilbúinn pizzaost í pokum.
Ég set áleggið alltaf undir ostinn því ég vil hafa hann dökkan og stökkan en sumir vilja hafa hann undir og áleggið ofan á.

Áleggið verður hver og einn auðvitað að velja fyrir sig en ég gerði tvær með pepperoni og sveppum, eina með pepperoni, sveppum, lauk og ólífum fyrir föður minn og eina afar sérkennilega með pepperoni, banana og gráðaosti fyrir systur mína.


Bakið pizzuna við 200° í 15-20 mínútur eða þar til osturinn verður fallega brúnn.

Afgangurinn af sósunni geymist í lokaðri krukku í 1-2 vikur í ísskáp.


Verði ykkur að góðu og njótið morgundagsins í Reykjavík kæru vinir!

Ummæli

Vinsælar færslur