Létt og laggott kjúklingasalat
Það er búið að vera svolítið mikið að gera síðustu daga og ekki mikið verið um bakstur eða eldamennsku síðan á sunnudaginn en þá djúpsteiktum við systur kleinuhringi, langa-jóna og kanilbollur með dyggri aðstoð foreldra okkar. Ég mun deila uppskriftum að herlegheitunum með ykkur innan tíðar.
Fyrst við vorum að hafa fyrir því að djúpsteikja skelltum við líka í eina leynilega fjölskylduuppskrift að ástarpungum, ég auðvitað gleymdi að taka mynd af þeim áður en þeir voru frystir.
Þrátt fyrir smá annríki gerði ég fljótlegt kjúklingasalat á mánudaginn.
Þegar mig langar í léttan kvöldverð geri ég stundum þetta ljúffenga salat. Það er einfalt og fyrirhöfnin afar lítil.
Kjúklingasalat með grænu pestó
fyrir 3-4
1 pakki salatblanda
1 rauð paprika
1 agúrka
1/2 - 1 pakki furuhnetur
1 krukka fetaostur
1 krukka fetaostur
3 kjúklingabringur
salt
hvítur pipar
hvítlauksduft
1 krukka grænt pestó
Rífið salatblöð í skál. Skerið papriku og agúrku smátt og blandið saman við salatblöðin.
Þurristið furuhnetur á pönnu og sáldrið yfir salatið ásamt fetaosti án olíunnar.
Kryddið kjúklingabringur með salti, pipar og hvítlauksdufti. Hafið í huga að pestóið er mjög salt svo það dugar að setja örlítið salt öðru megin á kjúklingabringurnar.
Steikið kjúklingabringur í ofni við 180° í um 40 mínútur.
Skerið bringurnar í hæfilega stóra bita og setjið í skál.
Hrærið grænu pestó saman við kjúklingabringubitana og blandið saman við salatið.
Einfalt, fljótlegt og ljómandi gott!
Eigið góðan dag.
Tinna Björg
Ummæli
Skrifa ummæli