Kökur kökur kökur


Ég er mikil kökukerling og finnst gríðarlega gaman að búa þær til, hvað þá að borða þær. Fallegar kökur og kökuskreytingar eru mikið áhugamál hjá mér en ég er rétt að byrja að fikra mig áfram með sykurmassa og marsipan. Hérna koma nokkrar af mínum uppáhalds kökum en ég mun deila uppskriftunum með ykkur innan tíðar.


Skírnartertuna gerði ég í lok júní fyrir skírn dóttur minnar. Hún fékk nafnið Klara Sóllilja. Sóllilja er eftir langömmu minni sem var fyrsta Ásta Sólliljan og fæddist árið 1892. Nafnið er því gamalt ættarnafn en þær eru þónokkrar Sólliljurnar í ættinni.
Tertan sjálf samanstendur af tveimur marsipanbotnum og jarðarberja- og hindberjafyllingu. Ég breiddi svo sykurmassa yfir hana og skreytti með blómum og Hello Kitty fígúru úr sykurmassa sem ég hafði gert nokkrum dögum áður.
Þetta er frumraun mín í sykurmassagerð og heppnaðist held ég bara alveg ágætlega. Það var hún systir mín, bakarasnillingur með meiru, sem kenndi mér að gera þessa.

Vanillukaka með hvítu súkkulaði er í miklu uppáhaldi á heimilinu og þá sérstaklega ef hún er að drukkna í kremi. Botnarnir eru hvítir með vanillu. Ég er með vanilluæði þessa dagana og þykir allt með vanillu alveg sérlega gott. Til að fá sterkt bragð af kreminu nota ég vanillustangir í stað dropa. Þegar ég vil gera kökuna enn gómsætari myl ég stundum Oreo kexkökur og set á milli botnanna. Allt er betra með Oreo.Þessi kaka er ekki ósvipuð þeirri fyrir ofan en botnarnir í henni eru ofboðslega góðir dökkir súkkulaðibotnar með vanillukremi.


Oreokakan er hin fullkomna kaka sælkerans. Hún inniheldur allt sem mann dreymir um í einni köku, hvítt súkkulaði, rjóma, sykurpúðakrem, rjómaost, súkkulaði og Oreo kex. Þegar ég baka þessa köku er ég oftast búin að borða svo mikið af kremi að ég hef ekki pláss fyrir kökuna. Baksturinn er svolítið tímafrekur en hún inniheldur þrenns konar krem. Það er því svolítið puð að gera kökuna en á endanum er öll vinnan þess virði því hún er alveg guðdómlega góð.


Svo eru hérna nokkrar gullfallegar kökur sem Helena systir mín hefur bakað fyrir hin ýmsu tilefni. Myndirnar eru ekkert sérlega vel heppnaðar hjá mér, ég var meira að hugsa um að borða matinn en að taka myndir af honum.


Þessar hamborgaramúffur gerði systir mín fyrir 6 ára afmæli sonar síns. Kökurnar eru vanillumúffur með súkkulaðibotni og kremi á milli.


Litli frændi er heillaður af pýramídum og múmíum. Pýramídinn er gerður úr Rice Crispies stykkjum.


Múmíuna gerði hún úr sykurmassa.


Þessi kaka var hugmynd litla sex ára afmælisbarnsins en hann er sérlegur áhugamaður um peninga og fjársjóðskistur. Kakan er súkkulaðikaka með smjörkremi og sykurmassa yfir.

Þetta listaverk gerði hún svo fyrir skírn dóttur sinnar sem ber einnig Sólliljunafnið. Kakan er ekki skökk heldur er myndin tekin frá afar óheppilegu sjónarhorni.


Hugmyndirnar eru endalausar í kökugerðinni og uppskriftabankinn stækkar sífellt!

Kvöldmaturinn verður hins vegar ekki kökutengdur en ég ætla að búa til ljúffengan bananakjúkling sem hefur ekki verið eldaður á heimilinu í nokkur ár. Ég bíð í ofvæni eftir að geta byrjað að elda og hlakka mikið til að setjast við kvöldverðarborðið.

Uppskriftina set ég inn í kvöld eða á morgun svo fylgist með!


Tinna Björg

Ummæli

 1. Flott blogg. Hlakka til að fylgjast með þér! :)

  Væri frábært að fá uppskriftirnar af vanillukökunni með vanillukreminu og oreokökunnu.. :)

  SvaraEyða
  Svör
  1. Það vill svo heppilega til að ég er að fara að gera vanillukökuna á morgun og kem til með að skella uppskriftinni inn seinnipartinn :)

   Eyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur