Skúffukaka með kaffikremi


Fjölskylduskúffukökuna höfum við mæðgur bakað síðan ég man eftir mér. Deigið er svo fljótgert að það tekur því ekki að draga fram hrærivélina. Sá kostur sem mér finnst þessi skúffukaka hafa framyfir aðrar er að hún helst mjúk og rök í nokkra daga og geymist afskaplega vel. Hún er svakalega góð og best með ískaldri mjólk og þeyttum rjóma.

 

Skúffukaka með kaffikremi

Skúffukaka

4 1/2 dl hveiti
4 1/2 dl sykur
1 dl kakó
1 tsk salt
1 tsk matarsódi
1/2 tsk lyftiduft
1 1/2 dl vatn
2 dl súrmjólk eða AB mjólk
2 egg
175 g brætt smjör
3 tsk vanilludropar

Blandið þurrefnum saman í skál. Hrærið vatni og súrmjólk saman við þurrefnin. Bætið eggjum við og síðan smjöri og vanilludropum.

Smyrjið kökuform og hellið deiginu ofan í.
Bakið við 175° í 30-35 mínútur.

Til að kakan passi í djúpa ofnskúffu þarf að tvöfalda uppskriftina.  Athugið að ekki má opna ofninn fyrr en skúffukakan hefur bakast í um 30 mínútur eða þar til miðjan hefur bakast. Sé ofninn opnaður á meðan hún er hrá í miðjunni fellur kakan. Til að athuga hvort kakan sé bökuð í gegn, stingið prjóni í hana miðja. Ef prjónninn kemur hreinn upp úr kökunni er hún tilbúin.


Kaffikrem

8 dl flórsykur
150 g brætt smjör
4 msk kakó
5 msk sterkt kaffi
3-4 tsk vanilludropar

Blandið flórsykri og kakó saman í skál. Hrærið smjöri og heitu kaffi saman við. Mér finnst best að nota instant kaffi, þannig stjórna ég því hversu sterkt kaffið verður.
Þegar flórsykri, kakó, smjöri og kaffi hefur verið hrært saman verður blandan svolítið skrýtin, eins og hún hafi skilið sig. Til að kremið verði silkimjúkt, hrærið saman við það vanilludropum. Byrjið á 3 tsk af dropum og bætið svo meira við ef þarf.

Kælið skúffukökuna, smyrjið kreminu á hana og stráið kókosmjöli yfir. Njótið með ískaldri mjólk.


Verði ykkur að góðu!


Ummæli

 1. Krakkarnir i leikskólanum í budardal fengu ad baka þessa köku og voru allir lukkulegir með kökuna :-) takk fyrir að deila með okkur þessar frábæru uppskriftir

  SvaraEyða
  Svör
  1. Nei en æðislegt að heyra! Vá hvað ég er ánægð með krakkana :)

   Eyða
 2. Þessi skúffukaka er orðin uppáhaldskakan á heimilinu enda svo þægilegt og fljótlegt að hræra í hana! Kærar þakkir fyrir allar góðu uppskriftirnar þínar :)

  SvaraEyða
  Svör
  1. Það er alveg dásamlegt að fá að heyra svona, kærar þakkir sömuleiðis Heiðrún! :)

   Eyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur