Sunnudagskaffið

Á þessum fallega sunnudegi ætla ég að deila með ykkur uppskrift að ávaxtaböku með tvenns konar fyllingu. Svo ljúffeng og dásamlegt að njóta hennar með kaffinu í dag.


Ávaxtabökur

Bökuskel

380 g hveiti
1/2 tsk salt
115 kalt smjörlíki
115 kalt smjör
4-5 msk ísvatn

Blandið saman í skál hveiti og salti. Merjið kalt smjörlíki og smjör með fingrunum og hnoðið saman við hveitið. Mér þykir best að nota hendurnar, hrærivélin er alveg óþörf. Bætið einni matskeið af vatni í einu við deigið og hnoðið áfram þar til það hnoðast saman í kúlu. Athugið að vatnið sé alveg ískalt,

Fletjið út 2/3 af deiginu og leggið í botninn á bökumóti. Skerið kantana af og snyrtið. Deigið festist auðveldlega við borðið svo það getur verið gott að fletja það út á smjörpappír.

Útbúið berja- eða ávaxtafyllingu og hellið í bökuskelina.


Berjafylling

180-200 g sykur
3 msk Maizenamjöl
2 msk hveiti
1 bolli frosin kirsuber
1 bolli frosin bláber
1 bolli frosin hindber
2 perur

Blandið saman í skál sykri, Maizenamjöli og hveiti. Afþíðið frosin ber þannig að þau verði hálffrosin. Afhýðið perur, kjarnhreinsið og skerið í smáa bita. Blandið kirsuberjum, bláberjum, hindberjum og perum saman við sykurblönduna og hellið fyllingunni í bökuskelina.


Eplafylling

150-180 g sykur
2 msk Maizenamjöl
2 msk hveiti
3-4 epli (Jonagold eða græn)

Blandið saman í skál sykri, Maizenamjöli og hveiti í skál. Afhýðið epli,  kjarnhreinsið og skerið í smáa bita. Blandið eplum saman við sykurblönduna og hellið eplafyllingunni í bökuskelina.

Fletjið út 1/3 af bökudeiginu, skerið í strimla og fléttið saman eða skerið út með fallegu smákökumóti. Til að spara handtökin er einnig hægt að leggja deigið útflatt yfir bökuna og skera mynstur í bökulokið með hníf.

Pískið eitt egg og penslið ávaxtabökuna með því. Bakið bökuna við 180° í 50-55 mínútur.

Njótið með þeyttum rjóma eða vanilluís.


Öll hráefni í þessar ljúffengu ávaxtabökur fást í Fjarðarkaupum.Eigið góðan dag kæru vinir!

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur