Látlaus kvöldverður í útileguna


Ég hef mikið dálæti á pottréttum og bestir þykir mér þeir réttir sem innihalda kjöt af einhverju tagi. Oftast verður nauta- eða svínakjöt fyrir valinu en stundum getur verið gott að bregða út af vananum og elda góðan pottrétt með kalkúnahakki. Þessa stórgóðu kalkúnakássu er tilvalið að hafa meðferðis í útileguna til að sleppa við eldamennsku eina kvöldstund. Svo bragðast hún jafnvel enn betur daginn eftir. Kalkúnakássa

2 hvítlauksrif
1 laukur
2 msk olía
600 g kalkúnahakk
2 stilkar sellerí
1 rauð paprika
1 dós nýrnabaunir
1 dós niðursoðnir tómatar
2 msk tómatpúrra
3 teningar kjúklingakraftur
250 ml vatn
5-10 g suðusúkkulaði (1-2 bitar)
1 rauður chilipipar
1 grænn chilipipar
2 tsk paprikuduft
2 tsk cumin
1 1/2 tsk þurrkaðar chiliflögur
1/2 tsk svartur pipar
1/2 tsk sjávarsalt

Skerið lauk í bita og pressið hvítlauksrif. Steikið í stórum potti með olíu þar til laukurinn mýkist. Bætið við kalkúnahakki í pottinn og steikið þar til hakkið byrjar að brúnast. Saxið sellerí og skerið papriku í litla bita, setjið í pottinn og steikið áfram við vægan hita. Sigtið og skolið nýrnabaunir og bætið í pottinn ásamt niðursoðnum tómötum, sem skornir hafa verið gróflega, safa úr tómatdósinni og tómatpúrru. Myljið kjúklingakraft í pottinn og hellið vatni saman við. Hitið kalkúnakássuna að suðu og látið krauma við vægan hita. Setjið suðusúkkulaði í pottinn og hrærið því vandlega saman við kássuna á meðan það bráðnar. Fræhreinsið og saxið rauðan og grænan chilipipar og bætið í pottinn. Þeir sem vilja hafa réttinn sterkan geta látið nokkur fræ úr chilipiparnum fylgja með. Kryddið kássuna með paprikudufti, cumin, þurrkuðum chiliflögum, svörtum pipar og sjávarsalti. Setjið lok á pottinn og látið kalkúnakássuna krauma við vægan hita í 4 klst.

Berið fram með góðu kornbrauði og ef til vill smá slettu af sýrðum rjóma.


Öll hráefni í þessa ljúffengu kalkúnakássu fást í Fjarðarkaupum.


Verði ykkur að góðu!


Tinna Björg


Ummæli

Vinsælar færslur