Steik og næs á sumardaginn fyrsta
Gleðilegt sumar kæru vinir! Það er aldeilis sumarblíðan sem við fáum loksins. Við skólafólkið erum víst dæmd til inniveru þessa dagana á lokaspretti annarinnar. En ég ætla þó að leyfa mér að skreppa á hestbak í góða veðrinu og fara með dóttur minni að horfa á eina litla uppáhalds vinkonu okkar keppa á hestamannamóti.
Á svona fínum fyrsta sumardegi er ekki úr vegi að hafa smá steik og næs í kvöldmatinn, er það nokkuð? Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að nautasteik með bernaisesósu og dásamlegu sumarsalati sem er sérréttur Margrétar Gnarr vinkonu minnar. Hún má eiga það að hún gerir girnilegustu salötin þessi elska. Bernaisesósuna var ég að gera í fyrsta skipti og tókst alveg hreint glimrandi vel til þótt ég segi sjálf frá.
Nautasteik með bernaise-sósu
Fyrir 4
Nautasteikur
1 kg nautalund eða nautafille
3-4 msk smjör
sjávarsalt
svartur pipar
Skerið nautakjöt í 250 g steikur og brúnið báðar hliðar upp úr smjöri á mjög heitri pönnu þar til stökk húð hefur myndast.
Eldið nautasteikurnar í ofni við 160° í 20-30 mínútur eða þar til réttum kjarnhita hefur verið náð. Ég kýs að hafa steikina mína vel eldaða og hef kjarnhitann um 68-70°.
Kryddið nautakjötið með sjávarsalti og pipar og látið þær standa í nokkrar mínútur.
Bernaise-sósa
4 eggjarauður
2 msk vatn
425 g brætt smjör
2 1/2 msk ferskt tarragon
1 1/2 - 2 msk bernaise essence
2 - 3 tsk nautakraftur
sjávarsalt
svartur pipar
Setjið eggjarauður og vatn í skál og þeytið með pískara yfir heitu vatnsbaði þar til blandan verður létt og ljós. Athugið þó að eggjarauðurnar mega alls ekki eldast heldur bara þykkna örlítið. Gott er að nota skál úr stáli því hún leiðir hitann vel.
Hellið bræddu smjöri út í eggjarauðurnar í mjórri bunu og þeytið vel á meðan. Saxið ferskt tarragon smátt og hrærið saman við. Smakkið sósuna til með bernaise essence, nautakrafti, sjávarsalti og svörtum pipar. Farið varlega í saltið því smjörið og kjötkrafturinn gera sósuna salta. Ég nota nautakraft í duftformi frá Oscar.
Sumarsalat
1 poki blandað salat
1/2 mangó
1 avocado
1 lítil askja jarðarber
1 appelsínugul paprika
1/2 agúrka
120 g kasjúhnetur
1/2 - 1 krukka fetaostur
Setjið blandað salat í fallega salatskál. Afhýðið mangó og avocado og fjarlægið steininn. Skerið í hæfilega stóra bita ásamt jarðarberjum, papriku og agúrku. Setjið niðurskorna ávextina og grænmetið í salatskálina og sáldrið yfir kasjúhnetum og fetaosti. Veltið öllu saman við salatblöðin og berið fram.
Ég hvet ykkur til að smakka þessa ljúffengu og safaríku nautasteik. Bernaisesósan er alveg hreint unaðsleg og salatið algjört lostæti. Svo er ekki verra að fá sér smá rautt með, svona af því að það er nú sumardagurinn fyrsti.
Öll hráefni í uppskriftir dagsins fást í Fjarðarkaupum. Nautakjötið góða fékk ég í kjötborði Fjarðarkaupa en þar er fersk kjötvara í miklu úrvali.
Njótið dagsins elskur og yndi!
Tinna
Björg
Ummæli
Skrifa ummæli