Páskakakan sem allir verða að smakka


Nú er alveg löngu kominn tími fyrir eins og eina góða uppskrift eða svo. Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að páskakökunni í ár, mangóostaköku. Aðrar ostakökur eiga ekki roð í þessa dýrindis dásemd. Uppskriftina gerði ég frá grunni og er alveg ótrúlega ánægð með hana.


Mangóostakaka

Kexbotn

1 1/2 kassi Tom & Jerry kex
100 g brætt smjör

Malið Tom & Jerry kex í matvinnsluvél eða blandara. Hellið bræddu smjöri yfir kexið og blandið saman þar til smjörið hefur vætt upp í öllu kexinu. Klæðið botninn á smelluformi með plastfilmu og þrýstið kexblöndunni jafnt og þétt ofan í botninn. Frystið kexbotninn á meðan ostafyllingin er gerð.


Ostafylling

400 g rjómaostur
3 1/2 dl flórsykur
350 ml þeyttur rjómi
6 matarlímsblöð
30 ml rjómi
2 pokar Cadbury súkkulaðiegg

Þeytið rjómaost og flórsykur saman. Blandið þeyttum rjóma varlega saman við rjómaostinn með sleikju. Leggið matarlímsblöð í vatnsbleyti þar til þau verða mjúk. Kreistið vatnið af matarlímsblöðunum og bræðið þau saman við 30 ml af rjóma sem hitaður hefur verið að suðu. Kælið matarlímið þar til það verður volgt. Hellið því svo í mjórri bunu út í ostafyllinguna. Mikilvægt er að hræra stanslaust í ostablöndunni á meðan með pískara til að koma í veg fyrir límkekki.

Brjótið Cadbury egg með buffhamri eða myljið þau gróft í matvinnsluvél og blandið þeim saman við ostafyllinguna.

Smyrjið ostafyllingunni jafnt yfir kexbotninn í smelluforminu og setjið í kæli á meðan mangóhlaupið er útbúið.


Mangóhlaup

1 mangó
safi úr 1/2 sítrónu
2 msk sykur
1/2 dl vatn
3 matarlímsblöð

Afhýðið mangó, maukið það í blandara og setjið í pott ásamt sítrónusafa, sykri og vatni. Hitið að suðu og látið krauma í um tvær mínútur eða þar til sykurinn hefur bráðnað.
Leggið matarlímsblöð í vatnsbleyti þar til þau verða mjúk og bræðið þau saman við mangósósuna.
Kælið mangóhlaupið niður að stofuhita og smyrjið því yfir ostakökuna. Kælið kökuna aftur í 2-3 klst eða þar til hún hefur stífnað. Skerið hliðar ostakökunnar lausar frá springforminu og leysið formið. Fjarlægið plastfilmuna undan kökunni og færið hana varlega á kökudisk.

Þegar ég geri ostaköku nota ég alltaf rjómaostinn frá Ostahúsinu því áferðin á honum er svo slétt og falleg.

Mér finnst mangóostakakan best þegar hún hefur fengið að standa í kæli yfir nótt. Þá geri ég kökubotninn og fyllinguna daginn áður og útbý svo hlaupið þegar ég ber kökuna fram.


Öll hráefni í páskaostakökuna góðu fást í Fjarðarkaupum ásamt dásamlegu úrvali af fallegum páskavörum.


Þessa dýrð verða allir ostakökuunnendur að prófa.
Gleðilega páska kæru vinir, njótið vel!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur