Fyrsti í jólabakstri - Snickers kökur



Ég var rétt í þessu að ljúka við jólaþrifin og næstur á dagskrá er smákökubaksturinn.

Á hverju ári geri ég þessar unaðslega smákökur með Snickers og ætla mér ekki að bregða út af vananum þetta árið enda með eindæmum alveg óþolandi vanaföst.


Í ár betrumbætti ég uppskriftina aðeins með karamelluhnetum og karamellusósu, þvílíkur unaður.


Snickers smákökur

Smákökur

160 g hveiti
150 g púðursykur
¼ tsk matarsódi
¼ tsk salt
80 g mjúkt smjör
1 egg
2 tsk vanilludropar
150 g Snickers
100 g suðusúkkulaði

Blandið þurrefnum saman í skál og  hrærið saman við smjöri, eggi og vanilludropum.

Saxið Snickers og suðusúkkulaði smátt og hnoðið saman við deigið.

Vigtið 8-10 g af deigi í hverja smáköku og rúllið í kúlur.
 Setjið kúlurnar á bökunarpappírsklædda ofnplötu og bakið í miðjum ofni við 175° í 6 mínútur.

Til að auðvelda baksturinn er gott að rúlla deiginu upp í lengjur, kæla þær í um 40 mínútur og skera niður í smákökur.

Kökurnar verða þó fallegri með fyrri aðferðinni.


Karamella

125 g púðursykur
100 g smjör
125 ml rjómi
1 tsk vanilludropar

Sjóðið allt saman í potti og látið krauma við vægan hita í 10 mínútur.

Látið karamelluna kólna niður við stofuhita.

Setjið karamellu í kramarhús og sprautið yfir miðjuna á hverri smáköku.


Hnetukurl

1 pakki ristaðar karamelluhnetur frá H-Berg

Saxið hnetur gróft og þekið karamelluna á smákökunum með hnetukurli.

 
Eigið ánægjulegan jólabakstur!

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur