Málefnalegar hrærivélapælingar og ostakaka á 5 mínútum

Prófatíðin er byrjuð með tilheyrandi stressi en fyrsta lokaprófið var í gærmorgun. 
Matargerð og bakstur eru því af skornum skammti og lítið um blogg þessa dagana.

Mig dagdreymir sjaldan eins mikið og þegar ég er að læra fyrir próf, þá sérstaklega um útlönd og fallega hluti.
Þessa stundina fletti ég í gegn um myndir af hrærivélum og læt mig dreyma um að eignast eina slíka.
 Einn daginn verð ég fullorðin og læt drauminn rætast.

Ég er veik fyrir antíkhvítu KitchenAid hrærivélinni.


Mér þykir KitchenAid hrærivélarnar svo ómótstæðilega fallegar, gamli stíllinn er svo heillandi og þær gefa eldhúsinu svo fágað útlit.

Ég hef hins vegar aldrei notað KitchenAid hrærivél áður og veit því ekki hversu mikil græja hún er.
Á mínum bakstursferli hef ég notast við yfir 30 ára gamla Kenwood hrærivél móður minnar sem er löngu komin til ára sinna.

Þrátt fyrir háan aldur og hin ýmsu óhöpp hefur vélin ávallt staðið fyrir sínu.
Þegar ég segi hin ýmsu óhöpp meina ég þau skipti sem hrærivélin hefur hnoðað sig fram af borðinu og niður á gólf.


Mér skilst að Kenwood hrærivélar séu meiri vinnuvélar en KitchenAid, þær eru kraftmeiri og skálarnar í þeim eru stærri.

Kenwood vélarnar eru líka töluvert ódýrari en KitchenAid hrærivélar, sem er mikill kostur fyrir bakstursbrjálaða námsmenn eins og mig.

Samt sem áður er antíkhvíta KitchenAid hrærivélin eitthvað svo óneitanlega heillandi að ég get bara ekki hætt að hugsa um hana.

Endilega leggið orð í belg um þessar hrærivélavangaveltur mínar og segið mér frá ykkar reynslu kæru vinir.
En að öðru!


Ég fékk gesti í síðustu viku og átti ekkert með kaffinu svo ég skellti í eina ótrúlega fljótlega og dásamlega Oreo ostaköku.
Þetta er síðasta ostakökuuppskriftin í bili, ég lofa að fara að hemja ostakökuskrímslið núna.

Ég var aðeins 5 mínútur að útbúa kökuna með dóttur mína á handleggnum, svo fljótleg er hún.
Þessi Oreo ostakaka er svakalega einföld en alveg ótrúlega bragðgóð.


5 mínútna Oreo ostakaka

200 g rjómaostur
1 dl flórsykur
1 tsk vanilludropar
300 ml þeyttur rjómi
1 pakki Oreo kex
1 tilbúin Oreo bökuskel

Þeytið rjómaost, flórsykur og vanilludropa saman og hrærið þeyttum rjóma vel saman við.

Myljið 12 Oreo kexkökur gróft og blandið saman við ostablönduna.

Smyrjið ostablöndunni ofan í bökuskelina, snúið 4 Oreo kexkökur í sundur og skreytið ostakökuna með þeim.

  
Tilbúinn Oreo bökubotn fæst í Kosti en þið getið einnig búið til ykkar eigin Oreo kökubotn.

Það er afar hentugt að eiga einn tilbúinn inni í skáp til að geta skellt í svona skyndiostaköku þegar maður fær óvænta gesti.

 Athugið að betra er að hafa bökubotninn í álforminu því hann brotnar og molnar auðveldlega.


Verði ykkur að góðu!


Tinna Björg

Ummæli

  1. Ég get mælt hiklaust með KitchenAid :) á tvær... eina 2 ára og eina sjötuga. Þær virka báðar, en þá eldri er aðeins farið að skorta orku. Eins og flestar aðrar sjötugar frúr er hún orðin svolítið lúin. Ó ég bara elska þær!

    Ég verð þó að viðurkenna að ég hef ekki reynslu af Kenwood vélunum... fæddist inn í KitchenAid sértrúarsöfnuðinn :)

    SvaraEyða
    Svör
    1. Frábært að heyra, takk kærlega fyrir athugasemdina :)

      Eyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur