Lifandi aðventukrans, einföld kertaskreyting og skreytt greni


Á aðventunni kveiki ég alltaf á kertum í aðventukransinum sem ég geri úr greinum af lifandi greni og sýprus.
Við erum alltaf með gervijólatré um jólin, sem mér finnst alveg ómögulegt en ég bæti mér það upp með greni hér og þar um heimilið.

Þennan sama krans geri ég á hverju ári og með sama skrauti.
Bastkransinn er fáanlegur m.a. í Blómaval og Garðheimum.
 Ég kaupi greni og festi það sjálf á kransinn en einnig er hægt að fá tilbúinn grenikrans.
Í kransinn þarf einn vönd af fallegu greni og einn vönd af sýprus.

Ég klippi grenið og sýprusinn svo niður í litlar greinar og vef þeim um kransinn með þunnum vír sem fæst í föndurverslunum.Litlu greinarnar eru lagðar á kransinn þannig að þær þeki hann og festar með vír.


Þegar grenikransinn er tilbúinn er ekkert eftir annað en að skreyta hann að vild.


Gylltu laufin keypti ég fyrir nokkrum árum í Hagkaup en þau voru föst á skrautgrein sem ég klippti niður.

Ég hef einnig gert jólakransa með gylltum könglum sem er ekki síður fallegt.
Könglana tíni ég af furutré í garðinum, spreyja með hárlakki og dýfi í gyllt glimmer.

 Rauðu kúlurnar keypti ég í Blómaval en þær fást í mörgum mismunandi litum, glansandi og mattar.


Kisinn hann Loki fær líka jólaslaufu á hverju ári svo hann fari nú ekki í jólaköttinn, því hann hatar ketti.

Ég er ofboðslega mikil kertakerling og þykir fátt notalegra en fallegar kertaskreytingar.
Þessa einföldu skreytingu gerði ég með afgangssýprus úr aðventukransagerðinni og rauðum borða úr Tiger.
Fallegar skreytingar þurfa síður en svo að vera flóknar eða dýrar.

 
Hver jól skreytum við leiði bróður míns, föðurömmu minnar, móðurömmu og -afa.
Síðastliðin ár höfum við skreytt lítið gervijólatré og sett á leiði bróður míns en í ár ákváðum við fjölskyldan að skreyta lítið sýprustré sem vex á leiðinu og er orðið nógu stórt til að þjóna tilgangi jólatrés.

Móðursystir mín keypti sér grenitré og þurfti að snyrta það aðeins til og var svo sæt í sér að gefa mömmu nokkrar greinar.
Ömmur mínar og afi fá greinarnar sem móðursystir mín færði okkur, skreyttar með könglum úr garðinum, rauðum slaufum og jólakúlum.
Það er svo miklu skemmtilegra að búa til skreytingarnar sjálfur en að kaupa þær í búð.
Ef það er eitthvað sem kemur manni í jólaskap þá er það föndur með ilmandi greni og rauðar jólaslaufur.

Ég hvet ykkur til að prófa sjálf á næsta ári!

Gleðileg jól kæru vinir, ég vona að þið hafið það sem allra best yfir hátíðarnar.


Tinna Björg

Ummæli

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur