Súkkulaðiterta með Dooley's ganache

Ég átti Dooley's karamellulíkjör sem mig langaði að prófa mig áfram með í bakstrinum.

Útkoma tilraunastarfseminnar var þessi vægast sagt ljúffenga terta en ég hef gert hana nokkrum sinnum og hún slær alltaf jafn mikið í gegn.

 Uppskriftin er ein af þeim sem birtist í Vikunni fyrr á árinu.


Súkkulaðiterta með Dooley‘s ganache

Súkkulaðibotnar:
 
6 egg
220 g sykur
200 g suðusúkkulaði
75 g hveiti
4 msk kakó

Þeytið egg þar til þau verða létt og froðukennd.
Bætið sykri við og haldið áfram að þeyta þar til blandan verður þykk og gulleit.

Sigtið saman hveiti og kakó og blandið varlega saman við eggjablönduna.

Bræðið því næst suðusúkkulaði og blandið einnig varlega saman við.

Smyrjið tvö 24 cm kökuform vel og vandlega með smjöri og sníðið bökunarpappír ofan í botna formanna.

Skiptið deiginu jafnt á milli forma og bakið við 180° í 20-25 mínútur.

Fjarlægið kökubotnana volga úr formunum og kælið alveg.


Fylling:

6 dl þeyttur rjómi
300 g rjómaostur
180 g flórsykur
1 1/2 tsk vanilludropar
6 matarlímsblöð
5 msk rjómi

Þeytið rjómaost við stofuhita, flórsykur og vanilludropa saman í skál og blandið rjóma varlega saman við.


Látið matarlímsblöð liggja í bleyti þar til þau verða mjúk.
Bræðið þau saman við rjóma og kælið örlítið.

Hellið matarlíminu í mjórri bunu út í ostafyllinguna og hrærið stöðugt á meðan.

Athugið að ostafyllingin þarf að vera við stofuhita þegar matarlíminu er hrært saman við því límkekkir geta myndast ef fyllingin er of köld.

Kælið fyllinguna í 3-4 klukkustundir eða þar til fyllingin stífnar.
Gott er að gera ostafyllinguna daginn áður og geyma í kæli yfir nótt. 


Dooley‘s ganache:
 
175 g suðusúkkulaði
125 ml rjómi
2 msk Dooley‘s karamellulíkjör

Saxið suðusúkkulaði smátt og setjið í skál.

Hitið rjóma að suðu og látið krauma í stutta stund við vægan hita.

Hellið rjómanum yfir suðusúkkulaðið og látið standa í 5 mínútur.

Mikilvægt er að leyfa blöndunni að standa þessar 5 mínútur án þess að hræra í því hún getur skilið sig.

Hrærið súkkulaðinu og rjómanum saman ásamt Dooley‘s líkjör.

Kælið í ísskáp í nokkrar klst. eða þar til blandan er orðin nógu þykk til að hægt sé að smyrja henni ofan á tertuna. Gott er að útbúa ganache daginn áður og geyma í kæli.


1 mangó
125 g bláber
125 g rifsber eða önnur ber


Hvolfið öðrum botninum á disk og smyrjið ostafyllingu yfir.

Leggið hinn botninn ofan á og smyrjið með þykku lagi af ganache.

Skerið mangó og dreifið yfir kökuna ásamt berjunum.


Þessi terta er svo aldeilis ljómandi tilvalin í aðventukaffið á sunnudaginn og ég hvet ykkur til að prófa hana.

Gleðilegan föstudag og góða helgi!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur