Kjúklingaborgari með BBQ-rjómasósu


Nú er nóg að gera þessa dagana í skólanum og lífinu svo lítill tími hefur gefist undanfarið til matargerðar og bloggskrifa. Við mæðgurnar fórum í skemmtilega myndatöku í gær til að ferska aðeins upp á útlit síðunnar, ég hlakka mikið til að sjá útkomuna og sýna ykkur. Myndatakan er í tengslum við nýtt og spennandi verkefni sem ég er svo heppin að fá að taka þátt í en mér bauðst að blogga í samstarfi við nýja og spennandi vefsíðu sem opnar þann 13. mars. Ég get ekki greint meira frá samstarfinu eða nýju vefsíðunni eins og er en ég get þó fullvissað ykkur um að hún verður snilldin ein. Spennan er í hámarki og ég hvet ykkur til að fylgjast vel með.

Við fjölskyldan byrjuðum vikuna á dýrindis kjúklingaborgurum sem við höfum reglulega í kvöldmat. Þótt ég eldi mikið er ég afar matvönd og borða helst ekki hamborgara nema ég geri þá sjálf frá grunni. Ég er hrifnari af kjúklingaborgurum og þá sérstaklega þessum eðalborgara með dásamlegri BBQ-rjómasósu. Þótt kalt sé í veðri grillum við reglulega enda ekkert því til fyrirstöðu að kveikja upp í grillinu sem stendur í skjóli úti á svölum. Kjúklingaborgarar
Fyrir 4
 
 4 kjúklingabringur
olía
salt
svartur pipar
8-12 sneiðar ostur
4 hamborgarabrauð

Penslið kjúklingabringur með olíu og kryddið með salti og pipar. Grillið bringurnar á hvorri hlið í 5-7 mínútur eða þar til þær hafa eldast í gegn. Setjið 2-3 ostsneiðar á hverja kjúklingabringu þegar 3 mínútur eru eftir af grilltímanum. Osturinn á að bráðna en ekki verða stökkur.
 Takið hamborgarabrauð í sundur og látið bakast á báðum hliðum á efri grind grillsins þar til þau verða stökk að utan en mjúk að innan.


BBQ-rjómasósa
400 ml rjómi
6-8 msk BBQ-sósa
sósujafnari (má sleppa)

Hitið rjóma og BBQ-sósu saman og látið krauma við vægan hita í 5 mínútur. Mér þykir gott að hafa sósuna þunna en þeir sem vilja þykkja hana geta notað sósujafnara.


12 sneiðar beikon
1 avocado
salat
annað grænmeti eftir smekk
 
Steikið beikon og skerið avokado í sneiðar ásamt öðru grænmeti eftir smekk. Setjið kjúklingaborgarana saman með salati, avocado, beikoni og öðru grænmeti og hellið BBQ-rjómasósu yfir áður en brauðlokin fara ofan á. 

Berið fram með sætkartöflufrönskum eða ofnbökuðu grænmeti. 
 
Njótið dagsins kæru vinir! 


Tinna Björg 

Ummæli

Vinsælar færslur