Sushi með humar tempura

Ég er mikill sushiunnandi, sem er svolítið sérkennilegt því ég borða ekki hráan fisk. En það kemur ekki að sök því flestir ef ekki allir sushistaðir á höfuðborgarsvæðinu bjóða upp á bita með grænmeti og ýmsu öðru góðgæti.

Nýlega fór ég að prófa mig áfram í sushigerð og hefur nokkuð vel til tekist. Ég tek það þó fram að ég er enginn snillingur í þeim efnum og mig langar mikið að skella mér á námskeið við tækifæri til að læra réttu handtökin.
 Þegar ég útbý sushi fyrir mig og fjölskylduna geri ég makirúllur með laxi og grænmetisrúllur fyrir mig. Kærastinn minn fær svo oftast nokkra nigiribita aukalega því þeir eru hans uppáhald. Sushi með fersku grænmeti getur tæplega klikkað en mér þykir avocado ómissandi í makirúllurnar. Auk avocado er afar gott að hafa hvítlaukssteiktan aspas, gulrætur og klettasalat. Kjúklingastrimlar eru góðir með grænmetinu en allra best þykir mér þó sushi með humar tempura.
Fyrir þá sem ekki vita er humar tempura djúpsteiktur humar í tempuradeigi. Af því að ég er svo hrifin af humri með hvítlauk þykir mér ofboðslega gott að setja smá hvítlauksmaj0nes inn í makirúllurnar með djúpsteikta humrinum í stað spicy mayo eins og sushi inniheldur svo oft.

Þessa sushiuppskrift gerði ég fyrir saumaklúbbsmatarboð sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins í janúar. Myndina tók Þórður Arnar Þórðarson, ljósmyndari hjá Morgunblaðinu.



Makirúllur með humar tempura 

Hrísgrjón 

80 ml hrísgrjónaedik
30 g sykur
1/3 tsk salt
500 g sushi hrísgrjón
550 ml vatn


Hitið hrísgrjónaedik, sykur og salt saman í potti þar til sykurinn leysist upp án þess þó að blandan sjóði. Kælið ediksblönduna. 

Hreinsið hrísgrjón með köldu vatni í glerskál, nuddið burt sterkjuna og hellið af þeim. Endurtakið 3-4 sinnum þar til vatnið verður tært. Hellið köldu vatni yfir hrísgrjónin og látið standa í 30 mínútur eða þar til grjónin verða hvít. Sigtið hrísgrjónin og setjið í pott með loki ásamt vatni og hitið að suðu. Lækkið hitann og látið þau krauma í 15 mínútur. Takið pottinn af hellunni og látið hann standa í 15 mínútur með loki.

Setjið hrísgrjón í viðarskál eða eldfast mót og hellið ediksblöndu jafnt yfir. Blandið  saman með viðaráhaldi eins og verið sé að skera þau í sundur. Reynið að kremja hvorki hrísgrjónin né hræra í þeim heldur einungis að dreifa úr þeim, losa í sundur og kæla. 


Humar tempura 

300 g smáir humarhalar
125 g hveiti
½ tsk lyftiduft
salt
svartur pipar
180-200 ml sódavatn
olía

Blandið hveiti, lyftidufti, salti og svörtum pipar saman í skál og pískið sódavatn saman við. Þerrið humarhala og dýfið í deigið.

Hitið olíu að 180° og leggið humarhala varlega ofan í. Djúpsteikið þar til deigið hefur brúnast fallega. 


Hvítlauksmajones 

2 msk majones
1 hvítlauksrif
½ tsk chillimauk

Pressið hvítlauk og hrærið saman við majones og chillimauk. 


Maki rúllur 

8 nori þarablöð
elduð sushi hrísgrjón
humar tempura
1 avocado
klettasalat
hvítlauksmajones

Leggið nori þarablað á bambusmottu þannig að glansandi hliðin snúi niður. Þekið það með hrísgrjónum en skiljið eftir auða u.þ.b. 1 ½ cm breiða ræmu á öðrum endanum. Leggið humar tempura á þvert yfir miðju þarablaðsins ásamt handfylli af klettasalati. Skerið avocado í mjóar ræmur og leggið ofan á klettasalatið. Sprautið mjórri rönd af hvítlauksmajonesi yfir fyllinguna og rúllið upp með bambusmottunni.

Athugið að hafa fingurna alltaf blauta þegar sushi hrísgrjónin eru meðhöndluð því þau klístrast auðveldlega.

Þegar makirúllurnar eru skornar er gott að hafa hárbeittan hníf og dýfa honum í vatn á milli skurða. Skerið hverja rúllu í 8-10 jafnstóra bita.

Berið fram með sojasósu, súrsuðu engifer og wasabimauki.

Ég hvet alla sushielskandi lesendur til að prófa þessa unaðslegu útfærslu af maki.

Ykkur sem hafið áhuga á að fylgjast frekar með mér bendi ég á að fylgja mér á Instagram en notandanafnið er tinnabjorgcom.


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur