Gamli góði brauðrétturinn


 Þegar við systkinin vorum börn gerði móðir okkar svo ofboðslega góðan brauðrétt fyrir öll afmæli og veislur, gamla góða skinku- og aspasbrauðréttinn.
Ég leyfi mér að fullyrða að flestir, ef ekki allir, hafi smakkað þennan dásamlega brauðrétt í einhverri útfærslu. Mamma gerir réttinn með jafningi, systir mín gerir hann með smurosti og sumir gera hann með majonesi. Brauðrétturinn er einn af þeim uppáhalds réttum sem ég geri án þess að nota uppskrift. Ég ber hann á borð í öllum veislum því mér finnst nauðsynlegt að hafa eitthvað salt á boðstólnum með öllum sætindunum. Hægt er að gera brauðréttinn á ótal vegu en mig langar að deila með ykkur minni aðferð.


Skinku- og aspasbrauðréttur

3 msk smjör
4 msk hveiti
700 ml nýmjólk
1 askja sveppasmurostur
1 dós aspas
1 bréf skinka
2-3 tsk grænmetiskraftur
15 brauðsneiðar
250 g rifinn ostur  

Bræðið smjör í stórum potti, takið hann af hellunni og hrærið hveiti saman við með pískara - búið til svokallaða smjörbollu. Hrærið smá nýmjólk saman við smjörbolluna og setjið pottinn aftur á helluna. Eftir því sem jafningurinn þykknar, hrærið þá mjólk smátt og smátt saman við. Hveitið á það til að hlaupa í kekki þegar mjólkinni er bætt við og því er best að byrja á lítilli mjólk og hræra kekkina út á meðan jafningurinn er þykkur. Athugið að jafningurinn brennur auðveldlega við svo mikilvægt er að hræra hann stanslaust.

Bætið sveppasmurosti við og hellið soði úr aspasdósinni í jafninginn. Skerið aspas og skinku í hæfilega stóra bita og blandið saman við. Smakkið til með grænmetiskrafti, byrjið á 1 tsk því krafturinn er misjafnlega saltur. Ég nota grænmetiskraft frá Oscar í duftformi. Hitið jafninginn að suðu og látið krauma við vægan hita í nokkrar mínútur á meðan brauðið er skorið.

Fjarlægið skorpu af brauðsneiðum og skerið þær í teninga. Setjið helming brauðteninganna í botninn á eldföstu móti og ausið helmingi jafningsins yfir. Dreifið afganginum af brauðinu yfir jafninginn í mótinu og hellið svo jafningi yfir. Sáldrið að lokum rifnum osti yfir brauðréttinn og bakið í ofni við 200° í 20-25 mínútur eða þar til osturinn verður fallega brúnn og svolítið stökkur.


Þessi dásamlegi gamli og góði brauðréttur er tilvalinn í allar veislur eða bara sem ljúffengur kvöldverður um helgina. Hvet ykkur öll til að prófa.

Takk fyrir að fylgjast með!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur