Helgarkakan


Fyrsta vikan af meistaramánuði hefur gengið vel. Fimm æfingar búnar og nú á ég aldeilis skilið að fá helgarköku.

Að þessu sinni ætla ég að deila með ykkur uppskrift að Bounty kökunni hennar mömmu. Kókosmarengs með kremi og frosnum rjóma.. mmm...


Bounty kaka

Rjómaís

500 ml rjómi
1 1/2 tsk flórsykur 
1 vanillustöng

 Kljúfið vanillustöng í tvennt og skafið úr henni fræin. Setjið vanillufræ í skál ásamt rjóma og flórsykri og þeytið. Smyrjið þeytta rjómanum í springform og frystið í 4-5 klst. Gott er að útbúa rjómaísinn daginn áður og frysta yfir nótt.


Kókosmarengs
 
160 g sykur
4 eggjahvítur
200 g gróft kókosmjöl

Stífþeytið eggjahvítur, bætið við sykri og haldið áfram að þeyta þar til blandan verður alveg stíf.
Blandið kókosmjöli varlega saman við marengsinn með sleikju.

Smyrjið springform með Pam spreyi eða smjöri og smyrjið marengsinum ofan í. Gott er að hafa hringlaga bökunarpappír í botninum á forminu svo auðveldara sé að losa kókosmarengsinn að bakstri loknum.

Bakið við 170° í 18-20 mínútur.
Kælið botninn, losið úr springforminu og færið á fallegan kökudisk.


Súkkulaðikrem

160 g suðusúkkulaði
80 g smjör
6 eggjarauður
100 g flórsykur

 Bræðið suðusúkkulaði og smjör saman í potti við vægan hita og kælið. Þeytið eggjarauður og flórsykur saman þar til blandan verður létt og ljós. Hrærið súkkulaðiblöndunni saman við og hellið kreminu jafnt yfir kökuna þannig að það leki niður með hliðunum og hylji hana alveg.
  Kælið kökuna í um 20 mínútur þannig að kremið storkni örlítið.
Losið rjómaísinn úr springforminu og leggið ofan á kökuna.

Skreytið með litlum Bounty bitum eða jafnvel ristuðum kókosflögum.


Himnesk sunnudagssæla, svo einfalt er það.

Öll hráefnin í helgarkökuna ljúffengu fást í Fjarðarkaupum.


 Verði ykkur að góðu!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur