Hollt helgarnammi með kaffinu


Góðgæti helgarinnar að þessu sinni er heilsusamleg súkkulaðisæla. Einn til tveir bitar eru nóg til að svala sykurþörfinni og ég ætla ekki að lýsa því hvað þetta góðgæti fer vel með kaffibollanum.

 
 
Súkkulaðisæla

200 g gróft hnetusmjör
100 g hunang
90 g kókosolía
1 1/2 tsk vanilludropar
3-4 msk kakó
140 g tröllahafrar
30 g kókosflögur

Bræðið saman gróft hnetusmjör, hunang, kókosolíu, vanilludropa og kakó. Athugið að blandan brennur auðveldlega við svo hafið hitann tiltölulega lágan verið dugleg að hræra. Takið pottinn af hellunni og blandið tröllahöfrum og kókosflögum vandlega saman við.

Ég brýt kókosflögurnar aðeins með fingrunum svo þær dreifist betur þannig að maður fái nú eins og eina litla kókosflögu í hverjum bita.

Þrýstið súkkulaðiblöndunni ofan í bökunarpappírsklætt form, ég notaði ílangt nestisbox, og kælið í ísskáp í 1-2 klst.
Óþolinmóða fólkið (ég) skellir sælunni bara inn í frysti í 30 mínútur.

Losið súkkulaðisæluna úr forminu og skerið í ferninga.
Raðið á fallegan disk og njótið með rjúkandi heitu kaffi í fallegum bolla. Það er betra fyrir sálina að drekka og borða af fallegum borðbúnaði, svo einfalt er það.

Mér finnst mjög mikilvægt að hafa hentusmjörið gróft því hnetubrotin gera svo mikið fyrir súkkulaðisæluna. Í þessa uppskrift finnst mér best að nota Original hnetusmjörið frá Whole Earth. Hnetubrotin eru frekar stór og hnetusmjörið er gert úr hnetum með hýði svo það er dekkra og svolítið öðruvísi á bragðið.

Stundum koma dagar þar sem ég er að flýta mér eða nenni hreinlega ekki að vanda mig við að mæla hráefnin. Þá dreg ég fram vigtina og vigta hráefnin í upprunalegum umbúðum, moka svo upp úr ílátinu með skeið þar til vigtin segir mér að ég sé búin að létta ílátið um það sem nemur magninu sem á að fara í uppskriftina. Það gerði ég einmitt við þessa uppskrift, þess vegna er allt í grömmum.

Öll hráefni í þessa uppskrift fást í Fræinu í Fjarðarkaupum.

Ég minni á gjafaleikinn á Facebook.
Eigið góða helgi!

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur