Kleinuhringir og kanilbollur - Fjölskyldugaman


Á sunnudaginn fyrir viku tókum við systur heljarinnar bakstursdag og bökuðum/djúpsteiktum kleinuhringi, langa jóna, kanilbollur og ástarpunga með dyggri aðstoð foreldra okkar. Móðir mín og faðir eru svo miklir snyrtipinnar að þau tóku að sér að djúpsteikja herlegheitin og gerðu það úti á svölum svo feitin færi ekki um allt eldhús og subban ég færi mér ekki að voða. Þetta var svona svolítið fjölskyldu quality time, þótt foreldrar mínir séu eflaust alls ekki sammála.

Kleinuhringur með karamellu er með því besta sem ég fæ úr bakaríi en hann bragðast svo sannarlega betur þegar maður býr hann til sjálfur. Karamelluglassúrnum er ekkert sérstaklega auðvelt að líkja eftir en við komumst þó nokkuð nálægt því í annarri tilraun.


Kleinuhringir með karamelluglassúr
25-30 stk

3 msk þurrger
10 msk sykur
450 ml volg mjólk
675 g hveiti
1 tsk salt
150 g brætt smjör
3 tsk vanilludropar
3 þeytt egg
1000 ml sólblómaolía til djúpsteikingar

Leysið ger og 1 1/2 msk af sykri upp í 6 msk af vel volgri mjólk.
Leggið rakt viskastykki eða plastfilmu yfir skálina og látið hefast í 15 mínútur.


Þeytið egg í skál og leggið til hliðar.


Blandið saman hveiti, salti og 8 1/2 msk af sykri í hrærivélarskál.
Mótið holu í miðja hveitiblönduna.


Hellið gerdeiginu ofan í ásamt rest af mjólkinni.
Hrærið saman og bætið þeyttum eggjum við, síðan bræddu smjöri og vanilludropum.
Leggið rakt viskastykki yfir hrærivélarskálina og látið hefast í 45 mínútur eða þar til deigið hefur tvöfaldast.

Sáldrið vel af hveiti á borðið og hnoðið deigið upp úr hveitinu með höndunum í um 5 mínútur.

Fletjið deigið út þannig að það verði 2-3 cm þykkt og skerið út kleinuhringi með formum eða einhvers konar hringjum af tveimur mismunandi stærðum. Ég notaði hringlaga piparkökuform og lok af kryddstauk.

Setjið kleinuhringi og bollurnar, sem skornar eru út úr miðjunni, á smjörpappírsklæddar ofnskúffur og leggi viskastykki yfir. Látið hefast í 30 mínútur á heitum stofuofni eða öðrum hlýjum stað þar til kleinuhringirnir tvöfaldast.

Hitið olíu í stórum potti þar til hún hefur náð 190° hita.
Hægt er að prófa hana með því að láta brauðbita ofan í, ef hann verður gullinbrúnn eftir um það bil 30 sekúndur er olían tilbúin. Passið að hún hitni ekki of mikið.

Leggið nokkra kleinuhringi varlega ofan í olíuna og steikið í 3-5 mínútur.
Takið upp úr pottinum með þar til gerðum djúpsteikingarspaða og leggið á eldhúspappírsklætt fat.

Karamelluglassúr

200 g smjör
200 g púðursykur
2 dl rjómi
3 tsk vanilludropar
2-3 dl flórsykur

Sjóðið saman smjör, púðursykur, rjóma og vanilludropa.
Látið krauma við vægan  hita í nokkrar mínútur og kælið aðeins.
Hrærið flórsykri saman við, byrjið á 1 dl og bætið svo við þar til glassúrinn er orðinn hæfilega þykkur.

Smyrjið glassúrnum á kleinuhringina.



Við slógum tvær flugur í einu höggi og gerðum litlar kanilbollur úr miðjum kleinuhringjanna.
Kanilbollum verður svo auðvitað að fylgja vanilluglassúr til að dýfa í.


Kanilbollur

Miðjur kleinuhringjanna
sykur
kanill

Þegar bollurnar hafa hefast í 30 mínútur með kleinuhringjunum, djúpsteikið þær í 1-2 mínútur og veltið strax upp úr kanilsykri.

Vanilluglassúr

200 g flórsykur
4-5 msk nýmjólk
1 msk brætt smjör
vanilludropar eftir smekk.

Hrærið öllu saman og þynnið út með vanilludropum.

Ástarpungauppskriftin er leynileg fjölskylduuppskrift en ég ætla að deila með ykkur uppskriftinni að langa jóni innan tíðar, vanilluunnendur verið spenntir því vanillufyllingin er himnesk!


Ég vil minna ykkur á Facebook síðuna mína þar sem þið getið fylgst með því þegar ég set nýjar uppskriftir á bloggið. Endilega verið dugleg að deila kæru vinir svo fleiri geti nýtt sér uppskriftasafnið.

Takk kærlega fyrir að fylgjast með mér, njótið vikunnar!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur