Skírnartertugleði, kökuskreytingar og uppskrift að sykurmassa
Sólríka laugardaginn síðustu helgi byrjaði ég eldsnemma á skírnartertugerð fyrir litla vin minn sem fékk það fallega nafn Ólafur Orri.
Tertan samanstendur af tveimur marsipanbotnum með jarðarberjafrómas á milli. Hún er klædd hvítum sykurmassa og skreytt með blómum og lambi sem ég gerði úr sykurmassa tveimur dögum fyrr.
Sykurmassinn fæst tilbúinn í Hagkaup og fleiri búðum en hann er mun dýrari en sá sem maður býr til sjálfur.
Sykurmassi
160 g sykurpúðar
350-450 g flórsykur
1 - 1 1/2 msk vatn
gelmatarlitur
mjúk palminfeiti
Smyrjið glerskál vel og vandlega með palminfeiti og setjið í hana sykurpúða og vatn. Setjið skálina í örbylgjuofn og hitið í 90-120 sekúndur. Hrærið í sykurpúðunum á 30 sekúndna fresti með sleikju sem smurð hefur verið með palminfeiti. Hrærið matarlit saman við sykurpúðana og hitið síðustu 30 sekúndurnar. Þegar sykurpúðarnir hafa bráðnað þarf að hafa hraðar hendur og hræra helmingi flórsykursins saman við á meðan þeir eru heitir.
Smyrjið borðflötinn með palminfeiti og hnoðið sykurpúðana upp úr afgangi flórsykursins á borðinu. Hnoðið sykurmassann þar til hann verður eins og leir, hann er tilbúinn ef hann lekur ekki þegar hann er tekinn upp.
Þegar sykurmassinn er flattur út er mikilvægt að smyrja borðflötinn og kökukeflið með palminfeiti svo hann klístrist ekki.
Athugið að sykurmassinn og þá sérstaklega heitir sykurpúðarnir festast við allt eins og lím og því þarf að smyrja öll áhöld sem þeir snerta með palminfeiti. Einnig er mikilvægt að smyrja hendurnar vel og ef þið notið einnota hanska þarf að smyrja þá líka.
Þegar ég geri skírnartertu sem er á stærð við ofnskúffu þá þrefalda ég uppskriftina. Ég miða við að nota einfalda uppskrift í skreytinguna og tvöfalda til að þekja tertuna.
Ef afgangur verður af sykurmassanum má geyma hann í loftþéttum umbúðum í ísskáp í mánuð og hálft ár í frysti.
Sykurmassablómin geri ég með sérstökum blómastimplum sem ég pantaði á Ebay. Þar eru þeir töluvert ódýrari en hér á landi, jafnvel þótt við bætist sendingarkostnaður og tollar.
Sömu stimpla notaði ég við gerð skírnartertu dóttur minnar.
Fígúrurnar geri ég svo eftir eigin hugdettum en mér þykir gott að skoða hugmyndir á internetinu áður en ég hefst handa.
Þessa jólapakkatertu gerði ég fyrir fjölskylduhitting hjá stórfjölskyldu kærasta míns sem kemur saman árlega og á notalega jólastund saman.
Þessa jólapakkatertu gerði ég fyrir fjölskylduhitting hjá stórfjölskyldu kærasta míns sem kemur saman árlega og á notalega jólastund saman.
Ég læt svo fylgja með eina mynd af skírnartertu systurdóttur minnar sem systir mín gerði.
Nú er um að gera að prófa sig áfram og gefa hugmyndafluginu lausan tauminn.
Munið að æfingin skapar meistarann!
Tinna Björg
Ekkert smá flottar hjá þér, elska lambið.
SvaraEyðaTakk kærlega fyrir !
EyðaSæl.fallegar kökur hjá þér.en hvernig er uppskriftin af marsipanbotnum?
SvaraEyðaSæl Sigrún,
EyðaUppskriftin að marsipanbotnunum er hugarsmíð systur minnar og leyniuppskrift fjölskyldunnar :)