Berjaboost í tveimur útgáfum - laktósalaust fyrir fullorðna og sérstakt barnaboost

Þegar liggur vel á mér á morgnana geri ég stundum þetta svakalega góða berjaboost fyrir okkur mæðgurnar. Maginn í mér er svolítið viðkvæmur fyrir flestum mjólkurvörum og þá sérstaklega skyri svo ég nota laktósalaust skyr og mjólk í mitt boost. Dóttir mín er ekki orðin eins árs og ég reyni því að takmarka hennar mjólkurvöruneyslu við smjör á brauð og stundum smá smurost. Í staðinn fyrir skyr og mjólk fær hún Nanmjólk út í sitt boost. Ég nota þurrmjólk en þið getið líka notað Nanmjólkina úr fernu eða jafnvel stoðmjólk.
Í morgun renndum við Klara Sóllilja sitthvoru boostinu niður og skelltum okkur í ræktina með systur minni og hennar Sóllilju.


Barnaboost

1/2 dl frosin bláber 
2-3 frosin jarðarber
1/4 banani
1 msk hreint eplamauk
1/4 tsk hörfræ
90-120 ml köld Nanmjólk

Setjið bláber, jarðarber, banana, eplamauk og hörfræ í blandara ásamt 90 ml af Nanmjólk. Bætið restinni af Nanmjólkinni við ef boostið er of þykkt.


Laktósalaust berjaboost

1 dl frosin bláber
4-5 frosin jarðarber
1/2 banani
1/2 dl hreint eplamauk
1 msk hörfræ
1/2 dós Arna vanilluskyr
1 - 1 1/2 dl laktósalaus mjólk

Setjið bláber, jarðarber, banana, eplamauk, hörfræ og skyr í blandara ásamt 1 dl af laktósalausri mjólk. Bætið 1/2 dl við til að þynna ef þarf.

Eplamaukið sem ég nota í boostið er lífrænt frá Himneskt.

Mér þykir laktósafría skyrið gera boostið mun léttara og meira frískandi en venjulegt skyr, prófið og finnið muninn.


Ást og hamingja í glasi.

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur