Hornin hennar Steinunnar ömmu


Þá er þessi hráslagalegi laugardagur genginn í garð. Á svona dögum er tilvalið að vinda sér í bakstur til að eiga eitthvað að narta í með síðdegiskaffinu á meðan maður nöldrar yfir slepjulega veðrinu. Eða er ég kannski  ein um að vera eins og níræður karl?

Þegar ég var lítil, minni en þessir 165 cm sem ég er, var svo gott að fara í kaffiboð til ömmu. Hún var alltaf búin að baka þessi dásamlegu hveitihorn og gera heitt súkkulaði sem var í miklu uppáhaldi hjá okkur systkinunum og frændsystkinum. Hornin borðuðum við af krúttlega kínverska stellinu hennar og drukkum súkkulaðið úr fallegum bollum í stíl.

Þessari uppskrift hafði bróðir minn uppi á heima hjá föðurafa okkar nokkrum árum eftir að Steinunn amma kvaddi okkur. Við héldum að uppskriftin hefði farið með henni því þegar við systurnar inntum ömmu eftir henni sagðist hún alltaf gera hornin eftir hendingu hverju sinni og vissi ekkert hvar uppskriftin væri niður komin. Það var því mikil gleði hjá okkur systkinunum þegar uppskriftin fannst ásamt fleiri sem voru í miklu uppáhaldi. Þótt grunnuppskriftin að hornunum hafi fundist þá verða þau aldrei eins og dásamlegu hornin hennar ömmu.
 

Ömmuhorn
16 stk
 
8 g þurrger
1 dl vatn
½ dl mjólk
4 dl hveiti
3 msk hveitiklíð
½ tsk salt
½ tsk sykur
50 g smjör

1 msk kúmen

1 egg

Hitið mjólk og vatn í 37° og leysið gerið upp í blöndunni.
Sigtið hveiti, hveitiklíð, salt og sykur í skál og myljið smjör út í. Vætið í með gerblöndunni og hnoðið.
 

Látið deigið hefast í 15-20 mínútur og hnoðið það aftur.
Fletjið út í tvær kringlóttar kökur, skerið í 8 hluta og rúllið upp í horn. Setjið hornin á smjörpappírsklædda ofnplötu, penslið með hrærðu eggi og látið hefast í 15-20 mínútur.
 

Bakið við 180° í miðjum ofni í 10-15 mínútur.

Njótið með miklu smjöri og heitu súkkulaði.Þótt hveitihornin komi aldrei til með að bragðast alveg eins og hjá yndislegu ömmu þá komast þau því sem næst. Ég hvet ykkur eindregið til að prófa.
  
Verði ykkur að góðu!


Tinna Björg

Ummæli

 1. Takk fyrir þetta. Ég man eftir að hafa fengið svona hjá ömmu þinni á Ísafirði í denn. Gott ef hún lét okkur ekki baka þetta í heimilisfræði í Gaggó.

  Kveðja, Sigga frænka þín :-)

  SvaraEyða
  Svör
  1. En dásamlegt að heyra! Ég held einmitt að uppskriftin sé úr kennslubókinni hennar :)

   Eyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur