Ostakaka með Nóa kropp og hindberjasósu
Vinkvennahópurinn minn úr Verzlunarskólanum hittist reglulega í saumaklúbbi þar sem við spjöllum um daginn og veginn og borðum á okkur gat af dýrindis kræsingum.
Við hittumst hjá einni úr hópnum í kvöld og áttum skemmtilega stund saman, við höfðum ekki hist almennilega síðan í byrjun sumars og var því af nógu að taka í slúðri og fréttum.
Ég var svolítið tímabundin og gerði því uppáhalds ostakökuna mína þessa dagana og rjómakaramellukubba.
Uppskrift að kubbunum mun ég setja hér inn á bloggið um helgina en í þetta skipti ætla ég að deila með ykkur elskulegu ostakökunni minni.
Ég gerði kökuna fyrst fyrir afmælisveislu kærasta míns í október og gerði þá merku uppgötvun að Nóa kropp og ostakaka saman í einni uppskrift gera bragðlaukana afar hamingjusama.
Kakan inniheldur ekki mikið af rjómaosti, bragðið af henni er því frekar milt.
Ostakaka með Nóa kropp
250 g Nóa kropp
6 dl þeyttur rjómi
300 g rjómaostur
180 g flórsykur
1 1/2 tsk vanilludropar
400 g frosin hindber
2-3 msk hrásykur
Setjið Nóa kropp í eldfast mót eða annað fat og kremjið kúlurnar gróflega með flötum botni á glerglasi.
Hrærið rjómaost, flórsykur og vanilludropa saman í skál og blandið þeyttum rjóma vel og vandlega saman við.
Smyrjið ostablöndunni jafnt yfir Nóa kroppið og kælið.
Afþíðið hindber í örbylgjuofni til að flýta fyrir og sjóðið í potti ásamt hrásykri.
Látið krauma við vægan hita í 5 mínútur.
Athugið að ef hindberjasósan er látin sjóða of lengi soðna berin niður og úr verður sulta.
Sigtið sósuna á meðan hún er heit og kælið.
Hellið hindberjasósunni yfir ostakökuna og smyrjið henni jafnt á með skeið.
Best þykir mér kakan þegar hún hefur verið í frysti í 3-4 klukkustundir.
Þið ostakökuunnendur megið alls ekki láta þessa framhjá ykkur fara.
Hún er svolítið öðruvísi því hún er ekki bökuð eða látin stífna með matarlími en alveg ofboðslega góð engu að síður og afar fljótgerð.
Hún er svolítið öðruvísi því hún er ekki bökuð eða látin stífna með matarlími en alveg ofboðslega góð engu að síður og afar fljótgerð.
Bestu kveðjur
Tinna Björg
Ummæli
Skrifa ummæli