Rjómakaramellukubbar í barnaafmælið
Ég gerði þessa dásamlegu rjómakaramellukubba fyrir afmæli kærasta míns í október og einnig fyrir saumaklúbbinn í síðustu viku.
Þeir eru afar fljótgerðir og tilvalið að skella í eina svona uppskrift þegar eitthvað stendur til og maður er tímabundinn.
Rjómakaramellukubbarnir eru ekki ósvipaðir Dumle Rice Krispies kubbunum en þó aðeins stökkari og með öðruvísi karamellubragði.
Rjómakaramellukubbar
20 rjómakaramellur frá Freyju
100 g smjör
3 msk sýróp
5 bollar Rice Krispies
Bræðið rjómakaramellur, smjör og sýróp saman og látið krauma við vægan hita í 2-3 mínútur.
Athugið að ef karamellubráðin er látin krauma of lengi þá verða kubbarnir harðir og seigir.
Takið pottinn af hellunni, hrærið Rice Krispies saman við karamellubráðina og þrýstið blöndunni í ferhyrnt kökumót.
Kælið kökuna og skerið í kubba.
Ég held mér sé óhætt að segja að flestum börnum þyki Rice Krispies kökur góðar og eru rjómakaramellukubbarnir því tilvaldir í barnaafmælin.
Njótið vel.
Tinna Björg
Ummæli
Skrifa ummæli