Ómissandi meðlæti með kalkúninum á gamlárs


Með áramótakalkúninum hans föður míns borðum við dásamlegan sætkartöflurétt sem tryllir bragðlaukana. Réttinn smakkaði ég fyrst í þakkargjörðarboði hjá amerískum samstarfsfélaga pabba í varnarliðinu. Þakkargjörðarmáltíðin var alveg ekta amerísk og ógleymanleg, risastór smjörsprautaður kalkúnn, sætkartöfluréttur ásamt öðru meðlæti og kirsuberjaostakaka í eftirrétt. Pabbi starfaði hjá varnarliðinu í næstum 25 ár og við fjölskyldan tókum upp alls kyns venjur sem vina- og samstarfsfólk föður míns kynnti okkur fyrir á þeim tíma. Þeirra á meðal er kalkúninn á gamlárskvöld sem við borðum með waldorfsalati og þessum ljúffenga sætkartöflurétti. Hann er einskonar eftirréttaraðalréttur ef svo má að orði komast; sætar kartöflur, púðursykur, kanill og sykurpúðar. Þetta er ekki meðlæti sem maður ber fram með öllum steikum en allt er nú leyfilegt um áramótin.

Ofnbökuð sætkartöflumús

4 sætar kartöflur
125 g smjör
½ - ¾ dl púðursykur
1 ½ tsk kanill
250 g sykurpúðar


Bakið sætar kartöflur með hýði í ofni við 180° í 1 ½ - 2 klst. Langar og mjóar kartöflur þurfa um 1 ½ klst. en stórar og kringlóttar tæplega 2 klst. Skafið sætar kartöflur innan úr hýðinu og maukið þær í matvinnsluvél eða stappið. Skerið smjör í litla bita og hrærið saman við heita kartöflustöppuna ásamt púðursykri og kanil. Smyrjið sætkartöflustöppunni í eldfast mót og raðið sykurpúðum yfir. Bakið í ofni við 210° á grillstillingu í 10-15 mínútur eða þar til sykurpúðarnir bólgna út og verða fallega ljósbrúnir.

Ég kýs að hafa sætkartöflumúsina fremur sæta en sumum þykir nóg að setja örlítið af sykri og leyfa sætkartöflunum að njóta sín. Ég hvet ykkur því til að smakka sætkartöflumúsina til með sykri og kanil.

Þessi ljúffengi og einfaldi sætkartöfluréttur finnst mér ómissandi með hátíðarkalkúninum, þið verðið sko ekki svikin.

Öll hráfeni í ofnbökuðu sætkartöflumúsina fást í Fjarðarkaupum.


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur