Kakan sem gerir jólin á mínu heimili


Fyrir nokkrum vikum hafði blaðamaður frá Fréttablaðinu samband við mig sem bað mig að deila jólauppskrift með lesendum blaðsins og dekka upp fyrir jólaboð. Þar sem ég bý frekar þröngt geri ég lítið af því að halda jólaboð eða matarboð yfir höfuð svo ég dekkaði upp eins og ég væri að bjóða í lítið og krúttlegt kaffiboð. Ég tapaði mér aðeins í þessu rauða og doppótta, viðurkenni það. Er bara svo óhemju hrifin af þessum jólarauðu rustic vörum frá Litlu Garðbúðinni.


Jólakaffikönnur með íslenskri áletrun og rauðdóppóttir kökudiskar. Kerti í espresso-bollum í stíl við diskana.


Lítil gervijólatré, sveppastyttur, silfraðir störnustjakar fyrir sprittkerti og hvíta húsluktin skapa notalega sveitastemningu.

Dásamlegar jólakönnur fyrir kaffi eða heitt súkkulaði.


Að ljósmyndun lokinni var kakan svo gæðaprófuð í annað sinn.

Ég ólst upp við ýmsar jólahefðir sem eru mér afar kærar enn í dag. Sumar þeirra tóku foreldrar mínir upp þegar við systkinin vorum börn en aðrar hafa fylgt þeim frá þeirra barnæsku. Ein af mínum uppáhalds fjölskylduhefðum er þegar pabbi minn bakar amerísku jólakökuna sína. Það er svo dásamlegt að fylgjast með honum krúttkarlast í eldhúsinu með þvottabala fullan af deigi af því að engin skál á heimilinu er nógu stór. Hráefni í jólakökuna fær pabbi send að utan frá bandarískum vini sínum á hverju ári svo fyrirhöfnin er ekkert smáræði. Í uppskriftina notar hann m.a. sykursýrópslegin kirsuber og ananas sem ekki eru fáanleg hér á landi. Ég ætla að deila með ykkur breyttri útgáfu af amerísku jólakökunni hans pabba, hún er minni en sú upprunalega og inniheldur hráefni sem öll fást í matvöruverslunum hér heima.Ameríska jólakakan hans pabba
3 stk

170 g mjúkt smjör
100 g sykur
225 g ljós púðursykur
155 g ljóst kornsýróp
5 egg
60 ml appelsínusafi
2 tsk vanilludropar
260 g hveiti
1 tsk lyftiduft
1 tsk sjávarsalt
1 1/2 tsk allspice
1/2 tsk múskat
1 tsk kanill
80 g döðlur
90 g þurrkað mangó
200 g stórar rúsínur
200 g þurrkuð trönuber
100 g súkkat (Dr. Oetker)
100 g sykraður appelsínubörkur (Dr. Oetker)
180 g ljósar rúsínur
125 g rauð kokteilkirsuber (vigtuð án vökva)
55 g appelsínugul kirsuber (vigtuð án vökva)
80 ml vökvi af rauðum kirsuberjum
130 g valhnetur
180 g pecanhnetur
80 g möndlur

Saxið döðlur og mangó gróflega og blandið saman í skál ásamt stórum rúsínum, trönuberjum, súkkati, sykruðum appelsínuberki, ljósum rúsínum og kokteilkirsuberjum, sem skorin hafa verið í tvennt. Hellið vökva af kokteilkirsuberjum yfir þurrkuðu ávextina og blandið vel saman. Látið standa á meðan kökudeigið er útbúið en hrærið öðru hverju í ávöxtunum svo þeir drekki í sig allan vökvann.

Þeytið mjúkt smjör, sykur, púðursykur og kornsýróp vel og vandlega þar til blandan verður ljós og létt. Pískið egg í annarri skál og blandið síðan appelsínusafa og vanilludropum saman við. Hrærið eggjablöndu saman við sykurblöndu. 
Blandið saman í skál 130 g af hveiti, lyftidufti, salti, allspice, múskati og kanil og hrærið smátt og smátt saman við kökudeigið í um 3 mínútur eða þar til allt hefur blandast vel saman. Grófsaxið valhnetur, pecanhnetur og möndlur.

Blandið 130 g af hveiti saman við þurrkuðu ávextina þannig að það bindist vökvanum. Færið kökudeigið úr hrærivélarskálinni yfir í stærri og víðari skál. Hrærið þurrkuðum ávöxtum, valhnetum, pecanhnetum og möndlum saman við kökudeigið með sleif og deilið deiginu á milli þriggja einnota álforma, sem smurð hafa verið með Pam-spreyi. Bakið jólakökurnar í miðjum ofni við 150° í 45 mínútur. Áður en þær fara inn í ofn er mikilvægt að botnfylla ofnskúffu af heitu vatni og koma fyrir í neðstu hillu í ofninum. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að jólakökurnar þorni við baksturinn. Ef vatnið gufar upp þarf að bæta á það. Þegar kökurnar hafa bakast í 45 mínútur, skreytið þær þá með pecanhnetum og kokteilkirsuberjum, sem skorin hafa verið í tvennt. Lækkið hitann í 135° og bakið áfram í 20-25 mínútur eða þar til tannstöngull sem stungið er í kökurnar kemur upp hreinn. Látið jólakökurnar kólna í álformunum í um 2 klst. og pakkið þeim þá inn í plastfilmu svo þær haldist rakar. Geymið þær í ísskáp eða jafnvel frysti. Mín reynsla er sú að allur bakstur verður mýkri og rakari eftir frystingu.

Athugið að mikilvægt er að jólakökurnar séu bakaðar í einnota álformum því þær eru gjarnar á að brúnast of hratt í brauðformum.Öll hráefni í mína útgáfu af amerísku jólakökunni hans pabba fást í Fjarðarkaupum.

Allur borðbúnaður og skraut sem sjást á myndunum fékk ég í krúttlegustu verslun í heimi, Litlu Garðbúðinni.

Ég minni á gjafaleikinn í samstarfi við Fjarðarkaup sem er enn í fullum gangi!


Áhugasamir geta einnig fylgt mér á Instagram: tinnabjorgcom

Takk fyrir að fylgjast með.Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur