Djúpsteikt hvönn og ferðasaga úr Aðalvík


Það gleður mig mikið að segja frá því að fyrsti vefþátturinn af ,,Matur & Vín'' á KrómTV er efstur á lista yfir vinsælasta efni dagsins á Króm. Þvílík hamingja!

En að öðru, ég ætla að halda áfram með ferðasöguna. Í byrjun ágúst skrifaði ég færslu um sumarfríið mitt en við mæðgurnar fórum í tveggja vikna ferðalag með fjölskyldunni á Vestfirði. Ferðalagið byrjaði í Grunnavík, um þá ferð getið þið lesið hér. Þann 26. júlí fórum við Klara Sóllilja ásamt foreldrum mínum, föðurafa, bróður mínum, konu hans og börnum siglandi frá Ísafirði til Aðalvíkur.

Að Látrum í Aðalvík ólst föðurafi minn upp en á Ystabæ hófu afi hans og amma búskap. Hann bjó svo þar með móður sinni og gekk þar í skóla.
Þegar faðir minn var barn sneri afi svo aftur að Látrum með fjölskylduna sína og starfaði þar fyrir bandaríska herinn á meðan starfrækt var ratsjárstöð á Straumnesfjalli eftir seinni heimsstyrjöldina. Þá var víkin farin í eyði og einu Íslendingarnir sem þar bjuggu voru menn sem störfuðu á vegum hersins og aðstandendur sumra þeirra.
Hamingjan leynir sér ekki þegar afi og pabbi koma aftur á æskuslóðirnar, sæluglottið svoleiðis límist á andlit þeirra.

Við fjölskyldan eigum hlut í sumarhúsi sem stendur á gamla bæjarstæðinu að Ystabæ.
Það er alltaf jafn dásamlegt að koma í þessa paradís en sumarhúsið er staðsett á besta stað á Látrum með útsýni yfir víkina. Náttúrufegurðin er engu lík.

Á siglingunni til Aðalvíkur sáum við háhyrninga synda hjá. Mér láðist að taka myndir af þeim því ég var of upptekin við að dauðskammast mín fyrir að hafa æpt yfir allan bátinn: ,,Sjáið þið höfrungana!''. Ekki hvalina eða háhyrningana, nei, höfrungana. Alveg hreint flottust.

Hér erum við mamma, Klara Sóllilja, Freyja Rún, Olga, Sindri Snær og Steinar bróðir á leiðinni út Skutulsfjörðinn.

Aðalvíkin dásamlega.

 Ystibær

Ungar í bakpokum á leið í gönguferð.
 
 Blágresi, uppáhalds blómið mitt, vex um allt á Látrum.

Fullkomin mynd, fyrir utan þetta hálfdettandi barn þarna.
Afi með ungana sína.


Við Klara Sóllilja fórum í gönguferð með mömmu og pabba meðfram fjörunni til Miðvíkur einn sólríkan dag.

Hvítur fjörusandurinn er svo fallegur. Hér erum við á leið yfir í Miðvík.

Byggðin á Látrum

 Miðvík

Árósinn í Miðvík, horft til Sæbóls.


Ungfrúnni þótti sandurinn misgeðslegur.

Aðalvík var lýst friðland árið 1975 en þar er ekki bara dásamlega náttúru að finna heldur líka stórbrotið dýralíf.

 Á kvöldin horfðum við á tófufjölskyldu, stegg og læðu með 5 yrðlinga, leika sér í hlíðinni og leita að æti.

Tófumyndirnar eru teknar út um skítugan glugga svo myndgæðin eru ekki fyrsta flokks.


Allir úti að leika

Þetta var útsýnið af pallinum eitt kvöldið, nokkrar hnísur á leið út víkina.


 Tveir útselir skutu upp kollunum á sama stað stutt frá fjörunni tvo daga í röð.

 Fjórar kynslóðir saman komnar. Afi situr á kolakassanum, svipaðan þeim sem var nokkurs konar skammarkrókur í skólanum í gamla daga. Þar eyddi hann víst ófáum stundum. Boys will be boys.

Hlaðið grill, þetta er alvöru.

,,Ísskápurinn'' er hrein snilld. Í aðalvík er ekkert rafmagn svo til að halda kælivörum köldum eru þær geymdar inni í kofa sem rennur lækur í gegn um. Þannig komast engin kvikindi í matinn og kælivörurnar annað hvort svamla um í læknum eða liggja ofan í kössum sem hafðir eru í vatninu.

Gamla bæjarstæðið þar sem Ystibær stóð.

Klara Sóllilja að ræða alvarleg málefni við langafa sinn.

Árið 2006 komu gamlir hermenn til landsins sem höfðu verið staðsettir í H-4, ratsjárstöðinni á Straumnesfjalli, eftir seinni heimsstyrjöldina en faðir minn kom þá í kring ferð til Aðalvíkur með mennina. Ég og pabbi gengum upp á fjallið með eitilhörðum körlunum en þeir sem treystu sér ekki til að ganga voru keyrðir upp á sexhjólum. Björgunarsveitin í Bolungarvík var svo yndisleg að ferja tvö sexhjól yfir til Aðalvíkur með bát og þegar við komum í land voru björgunarsveitarmenn þegar búnir að gera við veginn upp fjallið svo fólkið og hjólin kæmust leiðar sinnar.

Flestir hermannanna voru í Aðalvík á þeim tíma þegar pabbi var þar lítill drengur. Það voru því gleðilegir endurfundir þegar afi og pabbi hittu gömlu hermennina sem flestir voru einungis ungir piltar þegar þeir voru hér síðast.

Næstsíðasta daginn í Aðalvík gengum við pabbi upp á Straumnesfjall til að skoða ástandið á H-4 og híbýlum hermannanna. Húsin sem byggð voru úr einingum hafa grotnað niður og dapurlegt að sjá hvernig veðrið hefur leikið þau illa.

Pabbi á leiðinni upp veginn að Straumnesfjalli.

Hér gefur að líta high fashion göngugarp. Jebb.

Eina rjúpan á fjallinu.

Híbýli hermannanna eru orðin eins og draugabær.


Við komum auga á borgarísjaka.

Útsýnið á leiðinni niður af fjallinu var ekki af verri endanum.


Svo er ein hérna af okkur mæðgunum í bátnum á leiðinni til baka.

Ég gæti sýnt ykkur endalaust af myndum frá þessum dásamlega stað en ég læt þetta gott heita.

Mig langar hins vegar að sýna ykkur hvernig þið getið gert áhugavert og öðruvísi meðlæti með lambalærinu, djúpsteikta ætihvönn.
Þessa meiriháttar snilld kenndi hún Magga mér, kokkur sem ég vann með á Hóteli Eddu í Sælingsdal sumarið 2012. Ég lærði svo margt áhugavert af þeirri elsku.

 Við fjölskyldan holusteiktum lambalæri eitt kvöldið í Aðalvík og buðum systur afa og hennar manni í mat. Djúpsteikta hvönnin var borin á borð með lambinu og sló aldeilis í gegn.


Þegar ég tíni hvönn til að djúpsteikja reyni ég að velja nýjustu blöðin, þau eru ljósari og bragðminni. Eftir því sem hvönnin er eldri og dekkri þeim mun bragðsterkari eru blöðin og bragðið svolítið rammt.


Djúpsteikt ætihvönn

300-400 ml olía
blöð af hvönn
sjávarsalt
Hitið olíuna þannig að hún verði nógu heit til að loftbólur myndist á hvannarblöðunum við steikingu. Leggið blöðin varlega í olíuna og látið liggja í um 30 sekúndur. Sjóðandi heit olían spýtist upp úr pottinum í allar áttir svo farið varlega.

Passið að olían hitni ekki of mikið. Ef hvannarblöðin verða brún eins og þessi aftarlega á myndinni, þá er olían of heit.

Takið hvönnina upp úr pottinum og leggið á eldhúspappír svo olían leki af. Sáldrið sjávarsalti yfir og berið fram með lambakjötinu eða borðið eins og snakk.


Þetta verðið þið að prófa þetta næsta sumar þegar hvönnin er í blóma. Þetta öðruvísi snakk er algjört lostæti.

 Takk fyrir að fylgjast með kæru vinir.
Bestu kveðjur.

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur