Ferðasaga úr Grunnavík - Amerískar pönnukökur með karamelluðum kanileplum og grautarlummur


Þá erum við mæðgurnar komnar heim í Kópavog eftir tveggja vikna ferðalag um Vestfirði. Við flugum til Ísafjarðar laugardaginn 20. júlí en bróðir minn var þegar kominn þangað með fjölskyldunni sinni og sótti okkur Klöru Sóllilju á flugvöllinn. Við gistum öll í Tunguskógi eina nótt í sumarhúsi Inga frænda. Það er alltaf jafn dásamlegt að koma í blíðuna inni í skógi en Ingi og hans fólk tekur alltaf jafn vel á móti okkur. Snemma á sunnudagsmorgninum fórum við Klara ásamt Steinari bróður, Olgu konunni hans og börnunum þeirra tveimur með bát til Grunnavíkur þar sem afi beið eftir að fá okkur í dekur. Að sjálfsögðu kvaddi ég ekki Ísafjörð án þess að koma við í besta bakaríi á Íslandi, Gamla bakaríinu, til að fá mér kleinuhring. Góð hugmynd svona fyrir klukkan 9 að morgni, eða þannig.

Við áttum margar góðar stundir í Grunnavík og börnin skemmtu sér konunglega við berjatínslu, sandmokstur og gönguferðir

Fyrir þá sem ekki þekkja til er Grunnavík lítil vík í Jökulfjörðum en þar ólst föðuramma mín upp og í seinni tíð eyddu amma og afi öllum sínum sumrum í litla sumarhúsinu sínu. Amma dó fyrir nokkrum árum en afi fer ennþá í Grunnavík á hverju sumri og við börnin, barnabörnin og barnabarnabörnin reynum að fara þangað reglulega, þó alltof sjaldan fyrir minn smekk. Á þessu svæði er ekkert rafmagn, takmarkað símasamband og afar fáar klukkur að finna í Sætúni hjá honum afa. Ég get ekki lýst því hversu stórkostlegt frelsi það er.

 Víkin fallega. Hinumegin við fjallið er Ísafjarðardjúp. 

Freyja Rún, bróðurdóttir mín, átti þriggja ára afmæli 22. júlí og þótt við værum í sveitinni þótti afa ómögulegt að halda ekki veislu fyrir blessað barnið. Hann bauð því bróður ömmu, konunni hans og syni þeirra í þessa líka fínu afmælisveislu en þau eiga sumarhús á gamla bæjarstæðinu á Oddsflöt þar sem amma og systkini hennar ólust upp. Í staðinn fyrir afmælistertu var jólakakan hans afa borin á borð ásamt bananamuffins og kryddbrauði sem ég hafði bakað fyrir ferðina. Til að setja punktinn yfir i-ið bakaði afi svo fyrir okkur pönnukökurnar hennar ömmu.

Þrír dúllurassar komnir í land

Við áttum 6 yndislega daga saman í Grunnavík í blíðskaparveðri sem einkenndust af mikilli útiveru, svefni og áti. Veðrið var eins og best var á kosið allan tímann, 18-22 stiga hiti. Sólin lét ekki sjá sig mikið en það var svosem ágætt fyrir börnin, hún bakaði okkur nefnilega vel þegar hún heiðraði okkur með nærveru sinni þarna einn daginn.

 
Sólsetur

Laugardaginn 26. júlí fórum við svo aftur siglandi til Ísafjarðar með afa. Á bryggjunni tóku foreldrar mínir á móti okkur en við stoppuðum aðeins í klukkutíma á Ísafirði, rétt nógu lengi til að versla mat fyrir næstu bátsferð og koma við í bakaríinu góða. Förinni var heitið til Aðalvíkur þar sem afi ólst upp en ég segi ykkur frá þeirri ferð næst.

Frændsystkinin þurftu nauðsynlega að sitja með fæturna í polli

Afi krúttkarl er alltaf eitthvað að baka og notast m.a. mikið við gömlu uppskriftirnar hennar ömmu. Í ferðalög tekur hann með sér litla handskrifaða uppskriftabók og upp úr henni töfraði hann fram þessar dýrindis amerísku pönnukökur fyrir okkur krakkana. Ég steikti svo karamelluð epli sem við settum ofan á pönnukökurnar ásamt vanilluskyri því við áttum engan rjóma til að þeyta. Maður bjargar sér í sveitinni.



Amerískar pönnukökur með karamelluðum kanileplum

Amerískar pönnukökur

1 egg
1 bolli hveiti
2 1/2 msk sykur
3 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
3/4 bolli mjólk

Þeytið egg með handþeytara og hrærið hveiti, sykri, lyftidufti, salti og mjólk saman við. Bræðið smjörklípu á heitir pönnu og ausið á hana deigi þannig að pönnukökurnar verða litlar og kringlóttar. Þegar loftbólurnar í deiginu springa á yfirborðinu og pönnukökurnar hafa nokkurn veginn bakast í gegn, snúið þeim við og steikið á hinni hliðinni.

Ég læt líka fylgja uppskrift að grautarlummunum hennar ömmu sem ég bakaði ofan í fjölskylduna í Aðalvík. Grautarlummur eru þær bestu í bransanum! Ef þið eigið afgang af hafragraut síðan í morgumatnum er tilvalið að nýta hann í lummur með síðdegiskaffinu.


Karamelluð kanilepli

2 epli
3-4 tsk kanill
4 tsk sykur
smjör

Fræhreinsið og skerið epli í sneiðar og veltið upp úr kanil á báðum hliðum. Sáldið sykri yfir báðar hliðar og steikið eplasneiðarnar upp úr vænni smjörklípu þar til sykurinn hefur bráðnað saman við smjörið og karamellast.

Berið pönnukökurnar fram með þeyttum rjóma og karamelluðum eplum eða prófið að smyrja þær með vanilluskyri.



Hafragrautarlummur

1 1/2 dl hveiti
1 tsk lyftiduft
1 1/2 msk sykur
2 msk kókosmjöl
2 egg
 1 1/2 dl hafragrautur
1 - 1 1/2 dl mjólk
25 g brætt smjör
1 dl rúsínur

Blandið saman hveiti, lyftidufti, sykri og kókosmjöli í skál og hrærið eggjum saman við. Bætið hafragraut við deigið og þynnið það með mjólk. Byrjið á 1/2 dl af mjólk og bætið smátt og smátt við þar til deigið verður nógu þunnt til að búa til lummur. Passið þó að setja ekki of mikla mjólk því deigið má ekki vera það þunnt að það leki um alla pönnu, við viljum hafa lummurnar litlar og svolítið þykkar. Hrærið bræddu smjöri saman við deigið ásamt rúsínum.

Ausið deigi á heita pönnu með matskeið eða lítilli ausu þannig að lummurnar verði ekki of stórar. Þegar loftbólurnar í deiginu springa á yfirborðinu og lummurnar hafa nokkurn veginn bakast í gegn, snúið þeim við og steikið á hinni hliðinni. Ég set alltaf smá smjörklípu á pönnuna til að byrja með, hvort sem ég nota pönnukökupönnu eða venjulega steikarpönnu. Passið að hafa pönnuna ekki of heita því þá brenna lummurnar áður en þær ná að bakast í gegn.

Mér finnst best að strá miklum púðursykri yfir lummurnar, best að hafa þær eins hollar og hægt er...


Báðar uppskriftirnar eru hreint út sagt dásamlegar og fara svolítið með mann aftur til fortíðar.

Í næstu færslu ætla ég að segja ykkur hvað við fjölskyldan baukuðum í Aðalvík.


Kveðja,

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur