Ferskt sesarsalat með grískri jógúrt


Við mamma vorum sammála um að það væri löngu kominn tími fyrir gott sesarsalat. Ég vippaði því fram úr erminni þeim ljúfa og létta rétti í gærkvöldi. Hin hefðbundna sesarsósa þykir mér aðeins of þung í magann og ansjósur eru alls ekki minn tebolli. Það er bara eitthvað svo furðulegt við að hafa litla fiska í salatinu sínu og langt frá því að vera bragðgott. Þegar ég geri sesarsalat sleppi ég ansjósunum og geri sósuna úr grískri jógúrt til helminga við majonesið.Sesarsalat með brauðteningum


Kjúklingabringur

3 kjúklingabringur
1-2 hvítlauksrif
börkur af 1 sítrónu
1/2 dl olía
sjávarsalt
svartur pipar

Setjið kjúklingabringur í skál eða fat og leggið til hliðar. Rífið hvítlauk og setjið í litla skál ásamt sítrónuberki og olíu. Blandið saman og hellið yfir kjúklingabringurnar. Veltið bringunum upp úr marineringunni og látið standa í skálinni í um 30 mínútur eða á meðan þið gerið brauðteningana og salatið. Þegar kjúklingabringurnar hafa marinerast, saltið þær og piprið. Grillið bringurnar svo á háum hita í 5-7 mínútur á hvorri hlið eða steikið í ofni í 40-50 mínútur við 180°.


Brauðteningar

250 g súrdeigsbrauð
5-6 msk olía
chiliduft
sjávarsalt
svartur pipar

Fjarlægið skorpu af súrdeigsbrauðinu og skerið það í hæfilega stóra teninga. Dreifið brauðteningunum á bökunarpappírsklædda ofnplötu og hellið olíu jafnt yfir. Veltið þeim upp úr olíunni og kryddið með chilidufti, sjávarsalti og svörtum pipar.
Bakið brauðteningana í ofni við 220° í 10-15 mínútur eða þar til þeir verða stökkir og fallega brúnir á endunum.

Ég nota kringlótta súrdeigsbrauðið úr Hagkaup. Þótt það sé svolítið mikil vinna að fjarlægja þykku skorpuna af því þá er það alveg fullkomið í brauðteninga. Svo er líka ljómandi gott að nota ciabatta.


Sesarsósa & salat

1 höfuð romain salat
3 msk Hellman's majones
3 msk grísk jógúrt
1 tsk dijon sinnep
2 hvítlauksrif
2 msk ferskur sítrónusafi
3/4 dl rifinn parmesan ostur
sjávarsalt
svartur pipar
100 g pecan hnetur
8-10 kirsuberjatómatar


Skerið endann af salathöfðinu og skolið blöðin með köldu vatni. Ég legg þau á eldhúspappír til þerris á meðan ég útbý salatsósuna.
Hrærið saman í skál majones, gríska jógúrt og dijon sinnep. Pressið hvítlauk og blandið saman við sósuna ásamt sítrónusafa og rifnum parmesan osti. Smakkið til með sjávarsalti og svörtum pipar. Ég nota Hellman's majones af því að það er hvítara og lítur betur út í sósunni en það er alveg jafn gott að nota þetta gamla góða íslenska.
Skerið salatblöðin hæfilega smátt, hellið sesarsósunni yfir og blandið vel saman við salatið.  Skiptið salatinu jafnt á þrjá diska og sáldrið pecan hnetum yfir ásamt kirsuberjatómötum sem hafa verið skornir í fernt. Skerið kjúklingabringur í sneiðar og leggið þær ofan á salatbeðið.

Parmesanpervertar eins og ég geta svo borið salatið fram með auka parmesan osti ofan á.


Þetta dásamlega salat er tilvalinn föstudagskvöldmatur, létt og laggott en samt smá fyrirhöfn. Brauðteningarnir eru líka svo mikill unaður að það er ekki nokkru lagi líkt. Ég geri alltaf nokkra aukalega af því að þeir eru aldrei svo heppnir að rata allir á salatið. Í gær gerði ég svolítið mikið af auka brauðteningum, þið megið giska einu sinni á hvað ég borðaði í hádegismat. Jább, eintóma brauðteninga.

Góða helgi!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur