Ævintýri síðustu helgar, matreiðsluþáttur nr. 2 og lopapeysan mín


Helgin mín var svo frábær að ég verð að segja ykkur aðeins frá henni. Við Klara Sóllilja fórum nefnilega í sumarbústað fjölskyldunnar vestur í Dali með foreldrum mínum. Þriðja helgin í september er hápunktur haustsins hjá mér því þá eru leitir og réttir í sveitinni. Þessa helgi er ég þó undantekningarlaust að drukkna í verkefnavinnu í skólanum svo ég hef ekki komist síðustu ár. Ég var þó svo heppin að komast þetta haustið.

Á laugardagsmorgun var ræs klukkan 7, meiriháttar átakanleg lífsreynsla því rétt áður en klukkan hringdi dreymdi mig að ég væri að fara að setja upp í mig fyrsta bitann af girnilegustu marmaraostaköku sem ég hef séð. Svekkt og súr staulaðist ég fram úr og gerði mig klára fyrir ferð til fjalla. Jens frændi, bróðir ömmu minnar, var svo elskulegur að lána mér hestinn sinn hann Dyn. Þar sem mín hross eru akfeit og í engri þjálfun ákvað ég að vera ekkert að ferja þau vestur til að hlussast um fjöll og firnindi yfir eina helgi.

Við leitarfélagarnir lögðum af stað á fjall rétt fyrir níu ásamt fríðu föruneyti, frændfólki mínu úr sveitinni. Þegar upp á fjall var komið skiptum við liði og fínkembdum jörðina. Við Dynur gengum fram á fótbrotið lamb sem var örmagna eftir að hafa staulast á beygðum og bólgnum fæti. Aldís frænka hjálpaði mér að lyfta því upp á hestinn, ég skellti mér svo á bak og saman komum við ríðandi niður af fjallinu, ég og lambið.


Fyrsta stopp. Klukkan orðin 9 og hópurinn byrjaður að sjússa sig í gang fyrir langan dag, partur af programmet.


Við Aldís frænka vígalegar.

Um klukkan tvö komum við niður í dal þar sem fleira frændfólk var tilbúið í fyrirstöðu, bæði á hrossum og fótgangandi. Það var svo ótrúlega gaman að hitta alla ættingjana og eiga með þeim samverustund í sveitarsælunni. Krakkarnir skemmtu sér ekki síður vel, enda mikið fjör að fá að fara á hestbak og reka rollur.
Við létum okkur nokkur gossa út í á frændsystkinin á eftir strokulömbum og urðum vel blaut. Barnið innra með mér kom því heim vel nært.

Niðri í dal beið mín lítil blómarós með afa sínum og ömmu. Steinhissa á þessu öllu saman.


Féð hvílt fyrir langa göngu niður í rétt. Veðrið var ekki af verri endanum.


Hrossabakterían virðist hafa gengið í erfðir. Jess!

Þegar við höfðum rekið niður í rétt var haldið niður í bústað að borða kvöldmat með fjölskyldunni og litla daman mín svæfð, útkeyrð eftir viðburðaríkan dag.
Mamman gerði sig svo klára fyrir gleði kvöldsins, ball í Tjarnarlundi í Saurbæ. Á ballinu stigum við frændsystkinin trylltan dans þar til fæturnir kláruðust. Mikil ósköp sem þetta var skemmtilegt kvöld. Þreytan daginn eftir var líka eftir því. Ég nefnilega dreif ekki framúr rúminu til að draga í dilka um morguninn. Kannski á næsta ári..

Dásamleg helgi í alla staði með frábæru fólki í sveitarsælunni, verst hvað hún var fljót að líða.

En að öðru. Ég á það til að setja ýmsar hugmyndir ótengdar mat hér inn á síðuna undir flokkinn Húsráð & hugmyndir. Um daginn fékk senda fyrirspurn í tölvupósti um lopapeysuna mína sem ég sést klæðast á nokkrum myndum á blogginu. Í staðinn fyrir Pinterest vikunnar þennan miðvikudag ætla ég því að deila með ykkur upplýsingum um lopapeysuna góðu, ég veit það eru margar áhugasamar prjónakonur eins og ég þarna úti.Lopapeysan mín

Elskulegu lopapeysuna mína prjónaði hún móðir mín fyrir mig fyrir nokkrum árum. Hún stendur alltaf fyrir sínu og ég fer ekki án hennar í ferðalög.

Uppskriftina er að finna í uppskriftablaðinu Lopi 29 en peysan heitir Ranga og er þar nr. 8.

Við prjónaskapinn breytti mamma uppskriftinni örlítið. Bolurinn á peysunni minni er aðeins lengri en á þeirri sem sýnd er í blaðinu. Mín peysa er með fallegum silfruðum hnöppum með nokkurs konar víkingamynstri en uppskriftin í Lopa 29 gerir ráð fyrir rennilás. Þá er mín peysa allt öðruvísi á litinn en peysan í blaðinu.


Nýr þáttur af matreiðsluþáttaröðinni á Króm.is fór á veraldarvefinn síðasta fimmtudag. Í þessum þætti bý ég til uppáhalds kjúklingasalatið mitt. Það er svoleiðis löðrandi í ljúffengri sósu og hreint út sagt dásamlegt.
Ég hvet ykkur til að horfa á þáttinn og skella svo í eitt svona salat um helgina.Takk enn og aftur fyrir lesturinn á blogginu kæru vinir.
Fylgið mér endilega á Instagram @tinnabjorgcom.


Þangað til næst!


Tinna Björg

www.krom.is

Ummæli

Vinsælar færslur