Ný matreiðsluþáttaröð - Oreo ostakaka í fyrsta þætti


Samstarfsverkefni mitt og Króm.is, sem ég sagði ykkur frá fyrir nokkrum vikum, hefur nú litið dagsins ljós. Um er að ræða matreiðsluþáttaseríu á KrómTV. Fyrsti þátturinn var sýndur í gærkvöldi en þar sýni ég áhorfendum hvernig hægt er að útbúa einfalda og ljúffenga Oreo ostaköku.
Hér getið þið séð þáttinn í allri sinni dýrð.


 

Uppskrift að Oreo ostakökunni sauð ég saman úr tveimur uppskriftum, botninn er úr þessari en fyllingin þessari.
Öll hráefni í kökuna fást í Fjarðarkaupum. Kökudiskinn, bollann, litlu gulu skálina og tedósina fékk ég í Litlu Garðbúðinni.


Oreo ostakaka

Oreo botn

2 pakkar Oreo kex (32 kexkökur)
100 g brætt smjör

Malið 2 Oreo kexpakka í matvinnsluvél og hrærið bræddu smjöri saman við. Klæðið smelluform að innan með plastfilmu. Þrýstið kexmulningnum í botninn og upp með hliðunum á forminu og kælið í um 40 mínútur. 


Ostafylling

 250 g rjómaostur
1 dl flórsykur
1 tsk vanilludropar
300 ml þeyttur rjómi
1 pakki Oreo kex

Þeytið saman rjómaost, flórsykur og vanilludropa og blandið þeyttum rjóma vel saman við með sleikju.
Myljið 12 Oreo kexkökur gróft, blandið saman við ostablönduna og smyrjið henni svo ofan í Oreo botninn. Snúið 4 Oreo kexkökur í sundur og skreytið ostakökuna með þeim.


Kælið kökuna í 2-3 klukkustundir áður en hún er borin fram.

  
Athugið að rjómaosturinn sé við stofuhita. Ég nota rjómaostinn í litlu dósunum frá MS því hann er mýkri og fínni en þessi í stóru bláu öskjunum.


Ég hvet ykkur til að fylgjast með mér á fimmtudögum á KrómTV þar sem ég sýni ykkur hvernig má matreiða dýrindis rétti á einfaldan máta. Eldamennskan þarf ekki að vera svo flókin sjáið þið til. Og klaufaskapur er alveg leyfilegur, þar tala ég af reynslu. Jáójá.

Fylgist með mér á Facebook 
og
Instagram: tinnabjorgcom.


Góða helgi kæru vinir!

Tinna Björg

www.krom.is 

Ummæli

Vinsælar færslur