Ostabrauðstangir með piparostasósu - Fullkomið HM snakk!


Þegar HM er í fullu fjöri er nauðsynlegt að eiga eitthvað gott nasl fyrir fótboltaáhugamennina í fjölskyldunni, er það ekki annars? Ég bakaði svoleiðis stórkostlegar ostabrauðstangir í gærkvöldi sem henta vel yfir fótboltanum. Með brauðstöngunum bar ég svo fram piparostasósu, af því að það er aldrei nóg af osti.


Ostabrauðstangir með piparostasósu

Ostabrauðstangir

120 ml volgt vatn
1 1/2 tsk þurrger
1/2 msk sykur
1 tsk salt
1 msk olía
240 g hveiti
1 1/2 hvítlauksrif
30 g brætt smjör
30 g fínt rifinn parmesanostur
200 g rifinn ostur
pizzakrydd
sjávarsalt
svartur pipar

Leysið upp ger og sykur í volgu vatni og blandið salti og olíu saman við. Hrærið hveiti smátt og smátt út í deigið og hnoðið þar til það kemur saman í kúlu sem festist við hnoðarann á hrærivélinni. Setjið plastfilmu yfir skálina og látið hefast í um 1 klst. Gott er að smyrja botn og hliðar á glerskál með smá smjöri og færa deigið yfir í hana þannig að auðveldara sé að losa það úr að hefun lokinni. Ég legg deigskálina oftast á heitan stofuofn til að flýta fyrir hefuninni, enda með eindæmum óþolinmóð.

Sáldrið smá hveiti á borðflötinn og fletjið deigið út þannig að það verði ferhyrnt og hæfilega þykkt. Ég fatti það út þannig að deigið passaði í ferhyrnt kökuform. Ég smurði formið með ágætis dassi af olíu og lagði deigið svo ofan í og teygði það út í öll horn. Ef þið eigið ekki ferhyrnt kökuform er alveg eins gott að setja deigið á bökunarpappírsörk sem smurð hefur verið með olíu.

Pressið hvítlauksrif og blandið saman við brætt smjör. Penslið hvítlaukssmjöri á deigið og sáldrið parmesanosti og osti yfir. Kryddið með pizzakryddi, sjávarsalti og svörtum pipar. Ég notaði Heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum. Bakið við 260° í 8-10 mínútur eða þar til deigið hefur dökknað og osturinn verður stökkur. Skerið brauðið í stangir og berið fram með heitri piparostasósu.


Piparostasósa

1 piparostur
1 1/2 - 2 dl mjólk

Rífið piparost þannig að hann bráðni fyrr og bræðið hann saman við mjólk. Það getur tekið svolítið langan tíma fyrir ostinn að bráðna og því þarf að passa að hafa ekki of lágan hita á hellunni. Athugið þó að sósan brennur auðveldlega við.

Ég át á mig gat í gærkvöldi. Kom svo heim úr vinnunni í dag og át á mig afgangagat.
 


Prófið þetta gotterí!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur