Smáköku-bake off í sveitinni


Bloggleysið er í hávegum haft þessa dagana. Við fjölskyldan komum heim úr sveitinni á þriðjudagskvöldið eftir langa helgi í sælunni. Afslöppunin var nú svosem ekki mikil því pabbi og mágur minn unnu hörðum höndum alla ferðina að endurbótum á sumarhúsinu á meðan við systurnar eltum börn um fjöll og firnindi. Laugardagurinn var dásamlegur, þvílíkt og annað eins blíðskaparveður! Við systir mín fórum með litlurnar tvær og litla frænda í sund, Klara Sóllilja hataði ekki að fljóta um laugina með sólhatt í nýja flothringnum sínum. Spánn hvað. Ungbarnarólurnar voru svo settar upp fyrir ofsa glöðu tvíburafrænkurnar.


Systir mín bjó til stóran og flottan ratleik og fjársjóðsleit fyrir Halldór Nökkva, systurson minn, svo hann hefði nú eitthvað við að vera. Stórkostleg afþreying fyrir krakka í ferðalagi!

Fyrsta vísbending ratleiksins

Á sunnudeginum kíktum við í menninguna í Búðardal og fórum þar á krúttað og kósý kaffihús niðri við höfnina. Já, það er höfn í Búðardal. Kaffihúsið heitir Leifsbúð. Ég var þar tíður gestur þegar ég vann á Hóteli Eddu á Laugum í Sælingsdal sumarið 2012 og finnst alltaf jafn notalegt að koma þangað. Ekki skemmir þessi dýrindis leikaðstaða þar sem hægt er að sitja í sófa og slappa af með kaffibollanum sínum á meðan börnin dunda sér. Auk þess að hýsa kaffihús er í húsinu starfrækt upplýsingamiðstöð og landfundasýning sem vert er að skoða. Fæstir sem eiga leið um Búðardal á ferðalagi sínu um landið gefa sér tíma til að stoppa nema þá aðeins í sjoppunni til að gúffa í sig óhollu snarli eða taka bensín. Já eða til að friða suðandi börn. Ég hvet ykkur til að bregða út af vananum næst þegar þið eigið leið um bæinn kæru vinir og kíkja á notalega kaffihúsið í Leifsbúð, þeir svöngu geta fengið sér kjötsúpuna sem þar er á boðstólnum. Upplýsingar um Leifsbúð má finna á Facebooksíðu kaffihússins.

 Leifsbúð í Búðardal

Við sykurelskandi systur sórum þess eið að þessi sveitarferð yrði sykurlaus og ætluðum eingöngu að hafa meðferðis hlaðborð ávaxta til að nasla í á kvöldin í staðinn fyrir snakkið og nammið. Svo rangt. Þessi fyrirheit viku fyrir þremur sortum af smákökum og alls konar óhollu takk fyrir pent. Ég bakaði pistasíufléttu sem entist ekki lengi en tók svo með tilbúið smákökudeig sem ég hrærði í snemma á föstudeginum fyrir brottför. Á laugardagskvöldinu vorum við systurnar svo með smáköku-bake off þar sem litli sjö ára frændi var dómarinn. Hann þorði ekki öðru en að dæma jafntefli, honum var svosem slétt sama um úrslitin þegar kökurnar voru komnar ofan í maga.


Í staðinn fyrir að setja Reese's Peanut Butter Cups í deigið setti ég þessa Reese's dropa sem ég rakst á í Krónunni um daginn. Sóðalega góðir, svo ekki sé meira sagt.
Hér höfum við mína uppskrift í bake off ókeppninni.


Smákökur með hvítu súkkulaði og Reese‘s dropum

225 g mjúkt smjör
400 g sykur
150 g púðursykur
2 egg
2 tsk vanilludropar
375 g hveiti
1 tsk matarsódi
1 tsk salt
200 g hvítt súkkulaði
250 g Reese‘s dropar

Hrærið saman smjör, sykur og púðursykur þar til blandan verður létt og ljós. Bætið við vanilludropum og eggjum, einu í einu. Hrærið hveiti, matarsóda og salti saman við sykurblönduna. Saxið hvítt súkkulaði og blandið saman við deigið ásamt Reese‘s dropum. Kælið deigið í 20-30 mínútur, rúllið því upp í hæfilega þykkar rúllur og kælið aftur í 10-20 mínútur. Skerið deigrúllurnar niður í smákökur, raðið þeim á smörpappírsklæddar bökunarplötur og bakið við 175° í 10-12 mínútur.

Smákökuhimnaríki, já ójá.


Takk fyrir að fylgjast með mér elsku þið...


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur