Kvöldmatur í miðri viku


Vikan hálfnuð og flesta eflaust farið að lengja eftir helginni. Ekki skemmir hún tilhlökkunina þessi dásamlega veðurspá, veðrið á að minnsta kosti að vera blómstrandi yndislegt í minni sveit. Þótt rigningin sé kærkomin fyrir jarðarberjaplönturnar og kryddjurtirnar þá finnst mér nóg komið af vökvun í bili. Vil fá sólina og sumarið sem vorið lofaði. Mér sýnist það ætla að ganga eftir, sú gula reyndi að minnsta kosti að gægjast á milli skýja hérna í Kópavoginum seinnipartinn. Við systurnar gerðum heiðarlega tilraun til að fara með litlurnar okkar í gönguferð í hádeginu en snerum við á punktinum þegar fór að rigna. Dagurinn í dag fór því fram aðallega innandyra.

En mál málanna, matur í miðri viku. Þegar ég var í menntaskóla var ekki óvinsælt hjá okkur vinkonunum að bruna í hádegishléinu á Nings og gúffa í okkur eggjanúðlunum ljúffengu. Það getur verið dýrt að kaupa skyndibita fyrir heila fjölskyldu þegar núðlulöngunin lætur á sér kræla en þá er tilvalið að elda þær sjálfur fyrir hressilega lægri summu. Eggjanúðlurnar eru svona ekta matur í miðri viku, skammturinn er stór og hægt að skella afganginum í nestisboxið daginn eftir. Ég hef stundum kjúkling og stundum ekki, fer allt eftir því hversu mikinn metnað ég hef fyrir eldamennsku hverju sinni.



Eggjanúðlur með kjúklingi

5-6 kjúklingalæri eða 2-3 bringur
salt
hvítur pipar
olía
200 g brokkolí
2-3 stórar gulrætur
1 púrrulaukur
spínat eftir smekk
6 egg
1 pakki Thai Choice núðlur
3-4 tsk chilimauk
aromat

 Hreinsið kjúklingalæri, skerið í hæfilega stóra bita og steikið á pönnu með smá olíu, salti og hvítum pipar. Setjið í stóra skál og leggið til hliðar. Skerið brokkolí í litla bita og sneiðið afhýddar gulrætur með ostaskera. Steikið brokkolíið og gulræturnar með smá olíu í 5-7 mínútur eða þar til grænmetið byrjar að mýkjast örlítið. Setjið í skálina með kjúklingabitunum og leggið til hliðar.
Skolið saltið af núðlunum með köldu vatni og sjóðið eftir leiðbeiningum án þess þó að kæla þær. Á meðan núðlurnar sjóða, steikið eggin á pönnu og búið til eggjahræru. Eggin eru tilbúin þegar þau eru fullelduð og hafa sundrast í litla bita.
Hellið vatni af núðlum, skerið nokkrum sinnum í gegn um þær með hníf svo þær verði styttri og steikið á pönnu með smá olíu, chilimauki og aromati. Blandið kjúklingabitum, gulrótum, brokkolíi, eggjum og spínati saman við núðlurnar og hitið allt saman á pönnu í nokkrar mínútur.

Til að fá góða thaílenska eggjanúðlubragðið er gott að nota smá sesamolíu við steikinguna en þó ekki nauðsynlegt. Ég gleymi því oftast en samt eru núðlurnar alltaf jafn ljúffengar.
Af því það eru til tvær pönnur á heimilinu, ein steikarpanna og ein wokpanna, þá nota ég þær báðar við gerð núðluréttarins. Mér finnst best að steikja kjúklinginn og eggin á steikarpönnunni en grænmetið og núðlurnar á wokpönnunni. Þannig losna ég við að steikarbrælan, sem eftir situr á pönnunni eftir kjúklinginn og eggin, blandist saman við núðlurnar.


Eggjanúðlurnar eru dásamlegar einar og sér en best finnst mér að borða þær með hrísgrjónum og sataysósu eða súrsætri.

Verði ykkur að góðu! 


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur