Lárperupasta með grillaðri kjúklingabringu


Ef það er eitthvað sem ég kann ekki að elda þá er það pasta. Ofsýð það alltaf þar til það verður slímugt því mér finnst pasta svo gott þannig. Á meðan ég borða ofsoðna pastað mitt, sem enginn vill borða með mér, hugsa ég um ofsoðnu pastaslaufurnar með tómatsósu og hráum pylsubitum sem ég fékk alltaf í hádeginu í hestaskólanum sem barn. Þvílíkt hnossgæti! Einu skiptin sem ég komst upp með að borða ósoðnar pylsur voru hjá honum Rabba í hestaskólanum því hún móðir mín var lítt hrifin af tilhugsuninni um að fóðra barnið sitt með svona ómeti.

Ég prófaði að gera tagliatelle með avocadosósu í fyrsta skipti fyrir nokkrum dögum. Uppskriftina kýs ég að kalla lárperupasta því avocadopasta hljómar svolítið skringilega. Ég ofsauð pastað auðvitað en fjölskyldan borðaði það samt sem áður með bestu lyst. Með pastanu grillaði ég kjúklingabringur, það varð að vera smá kjúklingur með öllu þessu græna. Ég viðurkenni að pastað er með ógirnilegri réttum sem ég hef eldað en ekki láta myndina blekkja, lárperupastað er dásamlega gott.


Lárperupasta
Fyrir 4

4 kjúklingabringur
250 g ósoðið tagliatelle
1 stórt avocado
2 msk grísk jógúrt
safi úr 1/4 sítrónu
1/2 - 1 dl olía
2 hvítlauksrif
handfylli fersk basilíka
smá ferskt oregano, steinselja og majoram eða önnur krydd
1/2 dl rifinn parmesanostur
1/2 tsk paprikuduft
sjávarsalt
svartur pipar
6-8 sólþurrkaðir tómatar í olíu 

 Penslið kjúklingabringur með smá olíu og kryddið með sjávarsalti og svörtum pipar. Grillið bringurnar í 5-7 mínútur á hvorri hlið og útbúið pastað á meðan.

Ég ætla ekki að fara að kenna ykkur að ofsjóða pasta svo þið farið bara eftir leiðbeiningum á pakkanum. Ég bæti þó alltaf smá olíu út í pottinn svo það límist ekki saman. Á meðan pastað sýður er ágætt að nýta tímann til að gera sósuna.
Afhýðið og skerið avocado í bita og maukið í matvinnsluvél ásamt grískri jógúrt, sítrónusafa, basílíku og öðrum ferskum kryddum, parmesanosti og paprikudufti. Smakkið til með sjávarsalti og svörtum pipar og bætið við olíu ef blandan er of þykk fyrir matvinnsluvélina að mauka.

Sigtið pasta og veltið upp úr lárperusósunni. Skerið sólþurrkaða tómata í bita og blandið saman við pastað.
Skammtið á fjóra diska og leggið kjúklingabringur ofan á.
Berið fram með góðu hvítlauksbrauði og parmesanosti.

Athugið að sólþurrkuðu tómatarnir eru svolítið yfirþyrmandi svo það er ágætt að hafa minna af þeim en meira.
Lárperupastað er virkilega gott eitt og sér og algjörlega óþarfi að hafa endilega kjúkling með því.

Slímugt, en bragðgott.
Hakúna Matata!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur