Dásamleg helgarterta



Það er kominn tími á eina helgartertu. Þessa unaðslegu marengstertu bakaði ég fyrst fyrir afmælisveislu stelpunnar minnar og ég held hreinlega að þetta sé ein sú besta til þessa. Snickers kremið ofan á tertunni er eiginlega bara fáránlegt. Ástaraldinið í rjómanum gefur henni súran og frískan keim sem vegur upp á móti öllum sykrinum. Dásamlegt.




Snickers marengs með ástaraldini

Marengsbotnar:
 
4 eggjahvítur
3 dl sykur
3 bollar Rice Krispies

Þeytið eggjahvítur í skál þar til þær verða stífar og ekki lengur froðukenndar. Bætið við sykri og stífþeytið. Blandið því næst Rice Krispies varlega saman við blönduna. Teiknið með blýanti hring á sitthvora bökunarpappírsörkina. Gott er að nota botninn úr 20 eða 24 cm kökuformi til að teikna eftir. Skiptið marengsblöndunni jafnt á bökunarpappírsarkirnar og smyrjið þannig að hún fylli upp í teiknuðu hringina.
Bakið marengsbotnana við 120° í 60 mínútur.


400 ml þeyttur rjómi
250 g jarðarber
3 ástaraldin
100 g Snickers

Skerið jarðarber í litla bita, skerið ástaraldin í tvennt og skafið innan úr þeim með skeið. Saxið Snickers í litla bita og blandið saman við þeyttan rjóma ásamt jarðarberjum og innihaldi ástaraldinanna.
Hvolfið öðrum marengsbotninum á fallegan kökudisk og smyrjið rjómablöndu jafnt yfir. Leggið svo hinn botninn ofan á.


Snickers krem:

200 g Snickers
40 g suðusúkkulaði
50 g smjör
4 eggjarauður
60 g flórsykur

Skerið Snickers í bita og bræðið í potti ásamt suðusúkkulaði og smjöri. Kælið blönduna í 10-15 mínútur. Þeytið eggjarauður þar til þær verða léttar og ljósar og bætið flórsykri smátt og smátt saman við. Þegar blandan hefur þykknað, bætið súkkulaðiblöndu saman við hana og þeytið í 2-3 mínútur.
Hellið kreminu jafnt yfir marengstertuna og skreytið hana að vild.


Þið hreinlega verðið að prófa þessa elsku.
Góða helgi!


Tinna Björg 

Ummæli

Vinsælar færslur